Fríar sætaferðir í Hafnarfjörð!
Úrslitaeinvígi Njarðvíkur og Hauka í Bónusdeild kvenna hefst fimmtudaginn 1. maí næstkomandi. Haukar eru deildarmeistarar og hafa því heimaleikjaréttinn og því er fyrsti leikurinn í Ólafssal.
Á leið sinni í úrslitaeinvígið hafði Njarðvík 3-0 sigur gegn Stjörnunni og 3-0 sigur gegn Keflavík. Haukar að sama skapi höfðu sigur í oddaleik,(3-2) gegn Grindavík í 8-liða úrslitum og lögðu svo Val 3-0 í undanúrslitum.
Í deildarkeppninni áður en deildinni var skipt upp í A og B hluta hafði Njarðvík öruggan 57-79 sigur í fyrstu viðureign tímabilsins gegn Haukum þegar liðin mættust í Ólafssal í október. Haukar tóku svo stigin tvö á nýju ári í IceMar Höllinni með 75-82 útisigri. Í A-hluta deildarinnar mættust svo liðin í einfaldri umferð og leikurinn í Ólafssal þar sem Haukar voru talsvert sterkari 94-68. Þrír deildarleikir og staðan þar 2-1 Haukum í vil.
Bæði lið hafa fengið sinn hvorn nasaþefinn af góðum árangri á leiktíðinni, Njarðvík varð VÍS-bikarmeistari eftir sigur á Grindavík í úrslitum en Haukar urðu deildarmeistarar. Það eru því ríkjandi bikarmeistarar og ríkjandi deildarmeistarar sem eru að fara í fjölbragðaglímu um Íslandsmeistaratitilinn. Við mætum græn!
Leikjaplanið í úrslitum Bónusdeildar kvenna
Leikur 1: 1. maí/ Haukar – Njarðvík kl. 19:15
Leikur 2: 4. maí/ Njarðvík – Haukar kl. 19:15
Leikur 3: 7. maí/ Haukar – Njarðvík kl. 19:15
Leikur 4: 10. maí/ Njarðvík – Haukar kl. 19:15 (ef þarf)
Leikur 5: 13. maí/ Haukar – Njarðvík kl. 19:15 (ef þarf)
Þá er gott fyrir Grænu Ljónahjörðina að vita að boðið verður upp á fríar sætaferðir á leikinn á fimmtudag en það er fyrirmyndarfyrirtækið Travice sem sér um að flytja okkar háværustu stuðningsmenn á leikinn. Skráning í sætaferðirnar fer fram hér.

