Komið að kveðjustund í Ljónagryfjunni: Fyllum Gryfjuna á þriðjudag!Prenta

Körfubolti

Þá er komið að því. Keppni í Bónus-deild kvenna hefst á morgun þriðjudag 1. október þegar Njarðvík tekur á móti Grindavík í fyrstu umferð Íslandsmótsins. Jafnframt verður þetta síðasti heimaleikur úrvalsdeildarliða Njarðvíkur í Ljónagryfjunni því félagið heldur á vit nýrra ævintýra í Stapagryfjunni á næstu dögum.

Nú hvetjum við alla Njarðvíkinga, unga sem aldna, til þess að fjölmenna á völlinn og fylla stúkuna í síðasta sinn. Við Njarðvíkingar höfum átt ótrúlegar stundir í þessu sögufræga húsi okkar og því við hæfi að kveðja með pompi og prakt. Stórleikur á boðstólunum þar sem Njarðvík tekur á móti Grindavík en þessi lið mættust einmitt í undanúrslitum á síðustu leiktíð þar sem okkar konur fóru með sigur af hólmi.

Ekki láta þig vanta á síðasta leikinn í Gryfjunni og svo minnum við alla á að ársmiðasalan er í fullum gangi á Stubbur-app og vissara að drífa sig því verðin hækka í októbermánuði.

Áfram Njarðvík!