Önnur viðureign Njarðvíkur og Hauka í úrslitum Bónusdeildar kvenna fer fram í IceMar Höllinni sunnudagskvöldið 4. maí kl. 19:15. Haukar leiða einvígið 1-0 og Ljónynjurnar okkar ætla sér ekki neitt annað en að jafna metin! Við í grænu hjörðinni ætlum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar, mæta græn og styðja okkar konur til sigurs. Fyrsta skrefið er að tryggja sér miða hér á Stubbur app.
Fyrir leik verða að sjálfsögðu gómsætir borgarar og drykkir á boðstólunum. Allir iðkendur körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur sem mæta í grænu fá frítt á völlinn! Þá verður fjölbreyttur Njarðvíkurvarningur til sölu fyrir leik svo það ættu allir að geta verið iðjagrænir á leiknum.
Fyrsti leikur í einvíginu var spennuslagur þar sem Haukar mörðu sigur, það er ljóst að hver einasti leikur í rimmunni verður hin mesta fjölbragðaglíma og því er það sjötti maðurinn í stúkunni sem gerir muninn. Mætum öll með læti – áfram Njarðvík!

