Njarðvík stakk af í síðari hálfleikPrenta

Körfubolti

Njarðvík tók á móti Hamar/Þór í 1. deild kvenna í Njarðtaksgryfjunni í dag. Eftir jafnan fyrri hálfleik stungu Njarðvíkingar af í þeim síðari og unnu öruggan 85-59 sigur. Þetta var sjötti sigurleikurinn í röð hjá Njarðvík en Hamar/Þór jafnframt að tapa sínum fimmta leik í röð.

Sameinaðar konur af Suðurlandi í Hamar/Þór voru á eldi í upphafi leiks og setti niður fjóra af fimm fyrstu þristunum sínum og leiddu 15-16 þegar Njarðvík tók kipp og náði forystunni og staðan 24-20 að loknum fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta voru Njarðvíkingar við stýrið en Hamar/Þór aldrei langt undan þökk sé Fallyn Elizabeth Ann Stevens sem hefur verið að smella að jafnaði fimm þristum niður í leik. Njarðvík leiddi þó 41-36 í leikhléi og Fallyn með 12 stig fyrir Hamar/Þór en hjá Njarðvíkingum höfðu níu leikmenn skorað á fyrstu 20 mínútum leiksins.

Heimakonur í Njarðvík skiptu um gír strax í upphafi síðari hálfleiks og unnu þriðja leikhluta 27-14 og staðan því 68-50 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og litlar blikur á lofti um að gestirnir ættu afturkvæmt. Það reyndist síðan vera raunin og lokatölur 85-59.

Fallyn fór fyrir gestunum með 20 stig og 10 fráköst en Hildur Björk Gunnsteinsdóttir og Hrafnhildur Magnúsdóttir bættu báðar við 9 stigum. Hjá Njarðvík voru margir að leggja í púkkið eins og áður segir en Chelse Jennings var með 18 stig og 11 fráköst og þá komu þær Krista Gló og Þuríður Birna báðar með 11 stig inn af Njarðvíkurbekknum. Alls voru sex leikmenn í liði Njarðvíkinga með 10 stig eða meira í dag.

Næst á dagskrá hjá Njarðvík er toppslagur gegn ÍR þann 2. mars en með sigri þar getur Njarðvík hrifstað til sín toppsætið í deildinni. Hamar/Þór freistar þess hinsvegar að komast á sigurbrautina þegar liðið mætir Stjörnunni í Garðabæ sama dag.

Staðan í 1. deild kvenna