Adam Eiður: Ljónagryfjan manns annað heimili í mörg árPrenta

Körfubolti

Þá er það Adam Eiður Ásgeirsson sem er þriðji Njarðvíkingurinn þetta sumarið sem heldur á mið körfubolta og náms í Bandaríkjunum en hann er á leið í John Brown University sem leikur í NAIA deildinni. Rétt eins og Snjólfur og Gabríel eru það næstu fjögur ár vestanhafs sem bíða Adams en fyrir komandi átök í Domino´s-deildinni hefur hann trú á Njarðvíkingum.

Hvernig líst þér á ævintýrið framundan í Bandaríkjunum? Við hverju býst þú af lífinu þarna ytra?
Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er gott prógram í NAIA deildinni og mikill metnaður lagður í körfuna. Ég verð náttúrulega í mjög rólegum bæ þannig að ætli þetta er held ég voðalega einfalt; námið og körfubolti.

Hvað á svo að fara að læra?
Viðskiptastjórnun

Hvernig lítur þú til baka á tímann þinn í Njarðvík og svo auðvitað reynslunni frá öðrum liðum hérlendis sem þú hefur leikið með.
Tíminn í Njarðvík er auðvitað ómetanlegur og Ljónagryfjan verið manns annað heimili í mörg ár. Reyndar hefði maður viljað fána á vegginn en það kemur að því. Ég var eitt ár í Þorlákshöfn og leið mjög vel þar, frábær klúbbur og frábært fólk!

Sjáum við þig ekki örugglega í Njarðvíkurbúning í framtíðinni?
Að sjálfsögðu.

Hvernig líst þér á komandi tímabil í Njarðtaks-gryfjunni?
Mér líst mjög vel á mannskapinn. Fullt af frábærum liðum í deildinni en ég hef trú á mínum mönnum. Ef við náum að stilla saman strengi og fá fólkið með er allt hægt. Gef síðan shoutout á Jón West Brom að lokum.