Nú þegar undirbúningur fyrir næsta sumar er hafinn er ekki úr vegi að rifja upp árangur síðustu leiktíðar.
Tölfræði og yfirlit fyrir meistaraflokk Njarðvíkur 2025 – samantekt.
Leikmannahópur Njarðvíkur 2025
Fremsta röð f.v.: Ali Basem Almosawe, Oumar Diouck, Tómas Bjarki Jónsson, Aron Snær Friðriksson, Kenneth Hogg, Daði Fannar Reinhardsson, Sigurjón Már Markússon, Björn Aron Björnsson, João Ananias Jordao Junior.
Miðröð f.v.: Ingi Þór Þórisson, Jaizkibel Roa Argote, Jayden Mikael Rosento, Thomas Boakye, Ýmir Hjálmsson, Svavar Örn Þórðarson, Andrés Már Kjartansson, Davíð Helgi Aronsson, Viggó Valgeirsson, Freysteinn Ingi Guðnason, Rafn Markús Vilbergsson, Sigurður Már Birnisson.
Aftasta röð f.v.: Gunnar Heiðar Þorvaldsson (þjálfari), Arnleifur Hjörleifsson, Valdimar Jóhannsson, Þorsteinn Örn Bernharðsson, Dominik Radic, Símon Logi Thasaphong, Arnar Helgi Magnússon, Arnar Smárason (aðstoðarþjálfari)
Inngangur:
Njarðvík rétt missti af úrslitakeppni liðanna í 2.-5. sæti árið 2024 þegar liðið gerði jafntefli í lokaleiknum gegn Grindavík og ÍR laumaði sér í 5. sætið. Fyrirliðar liðanna í Lengjudeildinni spáðu Njarðvík 5. sæti og sérfræðingar hjá Fótbolti.net voru ekki bjartsýnir fyrir sumarið og spáðu liðinu í 6. sæti en raunin varð sú að lengi vel var liðið við eða í toppsæti deildarinnar og töpuðum ekki leik fyrr en 17. ágúst en á endanum hafnaði liðið í 2. sæti deildarinnar aðeins stigi á eftir Þórsurum sem fóru beint upp. Í úrslitakeppninni unnun við Keflavík á útivelli en töpuðum sannfærandi fyrir þeim á heimavelli og vorum þar með úr leik. Þess má geta að þetta var eini leikurinn á tímabilinu sem Njarðvík skoraði ekki mark fyrir utan 2 leiki í Lengjubikarnum. Magnaður árangur.
Nokkrar breytingar urðu á liðinu á milli ára eins og alltaf í boltanum. Hreggviður og Ibra fóru og samningar við Kaj Leo og Indriða Áka voru ekki endurnýjaðir. Þá meiddist miðvörðurinn brasilíski Marcello Deverian Vicente illa og lék ekki aftur fyrir Njarðvík en hann lék alla 5 leiki liðsins í Lengjubikarnum. Til félagsins komu í þeirra stað Valdimar frá Selfossi og Bartosz markvörður frá Árbæ, Arnleifur, Davíð Helgi, Ýmir og Viggó að láni. Í júlí glugganum seldum við Amin Cosic til KR fyrir metfé ásamt því að Bartosz leitaði á önnur mið og fengum við í staðinn þá Ali og Thomas ásamt því að Daði Fannar kom til baka úr láni.
Lengjubikarinn 2025
Lengjubikarinn hófst í febrúar á móti KA. Þar sýndi Njarðvíkurliðið góðan leik og átti alls ekki skilið 0-1 tap í Reykjaneshöllinni. Næst kom góður sigur á móti Fram á útivelli og síðan tap á móti Íslandsmeisturunum í Breiðablik 2-3 á heimavelli. Næsti leikur í Árbænum á móti mjög svo öflugu Fylkisliði endaði 3-0 fyrir heimamenn og loks gerðum við jafntefli á heimavelli við Völsung. Næst neðsta sætið í riðlinum var okkar hlutskipti með 4 stig. 5 mörk skoruð og 9 fengin á okkur.
Mjólkurbikarinn 2025
Í 2. umferð mættum við BF 108 og sigruðum 5-0 á gervigrasinu við Reykjaneshöllina. Mættum síðan Stjörnunni í sjónvarpsleik í 32-liða úrslitum og gáfum þeim svo sannarlega leik. Leikurinn fór í framlengingu þar sem heimamenn jöfnuðu á ögurstundu eða á 97 mínútu nánast með síðustu spyrnu leiksins. Stjörnumenn bættu við 2 mörkum í framlengingunni og þar með lauk leik okkar í Mjólkurbikarnum að þessu sinni.
Lengjudeildlin 2025
Tímbilið byrjaði vel og Njarðvík spilaði skemmtilegan fótbolta en 2 vítaklúður í 3 fyrstu leikjunum í veg fyrir 3 sigra sem liðið átti skilið. Njarðvík var á toppnum eftir 5. Umferð en síðan í 2. sæti næstu 11 umferðir þar á eftir en fórum loks á toppinn í 16. umferð. Toppsætið var okkar næstu 3 umferðir en 3 töp í síðustu 5 leikjunum þýddi að hlutskiptið varð 2. sæti sem er lang besti árangur Njarðvíkur í sögunni. Fyrsta tap sumarsins kom 17 ágúst á heimavelli á móti Þrótti. Liðið skoraði 18 mörkum meira en árið á undan og við skoruðum í öllum leikjum sumarsins nema á móti Keflavík í lokaleiknum. Héldum hreinu í 4 leikjum í sumar (8 í fyrra).
Tölfræði ársins:
Þegar skoðaðar eru spilaðar mínútur í Lengjudeildinni má sjá að 10 leikmenn komu við sögu í 20 eða fleiri leikjum af þeim 24 sem leiknir voru. Aron Snær spilaði 23 af 24 leikjum og spilaði 96% mínútna. Sigurjón Már spilaði sömuleiðis 23 leiki og 95% mínútna. Arnleifur og Dominik Radic spiluðu 94% mínútna, Arnleikur í 23 leikjum en Dominik kom við sögu í öllum 24 leikjum sumarsins. Nánar má skoða þetta í töflunni hér að neðan en miðað er við 90 mínútur í leik og komi menn inn á í uppbótartíma reiknast það sem 1 mínúta.

Alls léku 29 leikmenn fyrir Njarðvík á árinu 2025 og sjá má fjölda leikja hjá hverjum og einum.
En alls spilaði Njarðvík 31 leik á tímabilinu og missti Sigurjón Már aðeins af einum leik allt tímabilið þegar hann tók út leikbann.
Tveir leikmenn báru höfuð og herðar í markaskorun rétt eins og árið 2024. Framherjarnir okkar Dominik og Oumar skoruðu yfir helming marka Njarðvíkur liðsins en alls komust 14 menn á blað. Þá má geta þess að Amin Cosic skoraði 6 mörk í deildinni í sínum 12 leikjum sem þýðir mark í öðrum hverjum leik sem er mjög góð tölfræði fyrir kantmann.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson tók við Njarðvíkurliðinu á miðju tímabili sumarið 2023
Alls lék Njarðvík 31 leik undir stjórn þeirra Gunnars Heiðars og Arnars Smárasonar aðstoðarþjálfara á nýliðnu tímabili. 15 sigrar unnust, 8 jafntefli og 8 töp sem þýðir 57% árangur.
Leikmannahópurinn 2025
Á lokahófi knattspyrnudeildar fyrir tímabilið 2025 var nokkrum áföngum fagnað.
Arnar Helgi Magnússon var verðlaunaður fyrir 250 leiki fyrir Njarðvík og þeir Oumar Diouck og Sigurjón Már Markússon voru verðlaunaðir fyrir 100 leiki og þeir Tómas Bjarki Jónsson, Svavar Örn Þórðarson, Freysteinn Ingi Guðnason og Aron Snær Friðriksson fyrir 50 leiki.
Oumar Diouck hlaut gullskóinn fyrir að vera markahæsti leikmaður sumarsins í deild, með 16 mörk en alls skoraði kappinn 20 mörk á tímabilinu og hefur skorað 70 mörk fyrir félagið í heild sinni.
Besti leikmaður tímabilsins valinn af leikmönnum, stjórn og þjálfurum var Oumar Diouck en Joao Ananias var valinn sá besti að mati stuðningsmanna Njarðvíkur.
Davíð Helgi Aronsson var síðan valinn efnilegasti leikmaður tímabilsins, og hlaut Mile bikarinn eftir flotta frammistöðu á árinu.

Greinin er aðsend frá stuðningsmanni Njarðvíkur, Jóni Jóhanni Þórðarssyni, og þökkum við honum innilega fyrir ítarlega og góða samantekt.
Áfram Njarðvík!