Ætla að hjálpa klúbbnum eins mikið og ég get
Benedikt Guðmundsson er næsti þjálfari meistaraflokks karla hjá Njarðvík og voru samningar þess efnis undirritaðir á dögunum. Um er að ræða þriggja ára samning milli Benedikts og UMFN en hann mun einnig taka að sér þjálfun yngri flokka hjá félaginu.
Benedikt hefur marga fjöruna sopið í þjálfun og síðast var hann við stjórnvölinn hjá kvennaliði KR og karlamegin var hann síðast hjá liði Þórs á Akureyri. Benedikt gerði KR að Íslandsmeisturum árið 2007 og þá einmitt sigruðu KR feikna sterkt lið Njarðvíkur í úrslitum. Benedikt hefur einnig stýrt liðum Grindavíkur, Fjölnis og Þórs úr Þorlákshöfn í úrvalsdeildinni.
Ljónin fá því nýjan þjálfara fyrir næstu leiktíð en Benedikt sem verður einnig með nokkra yngri flokka í Njarðvík er hálfa vegu kominn með samning sinn við KKÍ sem A-landsliðsþjálfari kvenna.
„Ég ætla að hjálpa klúbbnum eins mikið og ég get enda leist mér nokkuð vel á þetta þegar Njarðvíkingar höfðu samband,” sagði Benedikt sem verður þó ekki að þjálfa í fyrsta sinn á ferlinum í Ljónagryfjunni. „Ég var hér á síðustu öld með yngri flokka og þjálfaði þar marga góða stráka sem ræst hefur ansi vel úr,” sagði Benedikt sællar minningar.
Kristín Örlygsdóttir formaður KKD UMFN var ánægð með ráðninguna. „Við erum að fá öflugan og reyndan þjálfara til starfa í Ljónagryfjunni og erum spennt fyrir samstarfinu við Benna. Við fáum inn nýjan þjálfara og kveðjum fráfarandi þjálfara með þökkum fyrir gott samstarf. Nú skilja þar leiðir og nýr þjálfari tekur við og við óskum Einari Árna og fjölskyldu velfarnaðar á nýjum vettvangi og hlökkum til samstarfsins við Benedikt.”
Myndir/ Jón Björn – jbolafs@gmail.com – Brenton Birmingham varaformaður KKD UMFN og Kristín Örlygsdóttir formaður ásamt Benedikt þegar samningar voru undirritaðir.