Blóðugt tap í GarðabæPrenta

Körfubolti

Ljónin voru við stýrið í Garðabæ í gærkvöldi í rúman hálftíma. Þrjú tæknivíti þegar fimm mínútur lifðu leiks gerðu algerlega útslagið á spennuslagnum og okkar menn urðu að fella sig við 82-76 ósigur. Slæm ákvarðanataka í lokin gerði það svo að verkum að við náðum ekki að halda innbyrðisviðureigninni gegn Stjörnunni.

Njarðvíkingar leiddu 40-45 í hálfleik og nokkrum sinnum fengum við séns til þess að slíta okkur jafnvel lengra frá Garðbæingum en þeir gengu (bókstaflega, 5 skref) á lagið þegar hrært var í T-súpuna.

Eins og greint var frá í Körfuboltakvöldi í gærkvöldi þá fékk Mario fyrstu T-villuna þegar hann hlaut skurð undir auga og mikið blæddi úr. Viðbrögð hans við sársaukanum uppskáru T-villu og í kjölfarið fylgdu tvær T-villur til viðbótar, það var hlaðborð enda þrír dómarar sem stukku á fjörið hver um sig og fundu sig knúna til þess að dreifa T-villum fremur en að hemja aðstæður og varðveita leikinn. Flestir Njarðvíkingar vildu sjá sóknarbrot á Pryor en það er ekki á allt kosið í þessu. Þá má benda á að mikil umræða hefur átt sér stað um höfuðáverka í íþróttum og án þess að taka nokkurs konar tillit til þess og ástands leikmannsins er blásið í T-villu á Mario innan við tveimur sekúndum eftir að andlitið á honum er opnað með olnbogaskoti. Veruleg vonbrigði hvernig farið var með aðstæður í góðum leik.

Eftir gærkvöldið er Stjarnan á toppi deildarinnar með betri innbyrðis stöðu gegn okkur en bæði lið hafa 30 stig. Njarðvík dugir ekkert annað en að vinna alla leiki sem eftir eru og því viljum við sjá troðfulla Ljónagryfju á fimmtudag þegar ÍR kemur í heimsókn. Nú er gengið í garð hraðmót í anda úrslitakeppninnar eftir langt bikar- og landsleikjahlé.

Jeb Ivey var stigahæstur í gær með 20 stig og 5 stoðsendingar og Elvar Már Friðriksson bætti við 15 stigum, 6 fráköstum og 9 stoðsendingum. Mario lauk leik með 10 stig og 5 fráköst og kom ekki inn á leikvöllinn síðustu fimm mínútur leiksins vegna skurðarins sem hann hlaut í leiknum.

Á fimmtudag eins og áður hefur komið fram er ÍR í heimsókn og það eru tvö stig sem Ljónin þurfa að sækja af miklu harðfylgi. Mætum græn!

Mynd/ Eva Björk – Mario blóðgaður og uppsker algerlega glórulaust T-víti.

Áfram Njarðvík