Martin, Elvar og félagar í LIU Brooklyn háskólanum hafa hitt frekar illa það sem af er vetri en það varð heldur betur breyting þar á í gærkvöldi þar sem þeir lönduðu sínum fyrsta sigri í vetur. Fyrsti sigur vetrarinns varð gegn Maine háskólanum á úti velli 83-70. Svartfuglarnir hófu leikinn með 10-4 spretti en hleyptu svo Maine í 13-0 sprett með slakri vörn. 4 stigum undir í hálfleik ákvað Elvar Már að fara í málið. Setti niður þrist strax í upphafi seinni hálfleiks og gaf stórkostlegar sendingar út um allan völl sem skiluðu liðsfélögum hans galopnum þriggja stiga skotum sem þeir nýttu. Tvídekkanir Maine leikmanna á Elvar gerðu lítið gagn því hann fór bara í gegnum þær eða fann opinn leikmann sem setti niður skotið. LIU liðið hitti afburðavel í seinni hálfleik, 17/28 eða um 61% og brenndu ekki af skoti fyrir utan þriggja stiga línuna með alls 7 skot þaðan. Svartfuglarnir skoruðu alls 83 stig í leiknum sem er það mesta sem liðið hefur skorað í einum leik í vetur. Elvar Már leiddi sitt lið til sigurs og setti 19 stig (með aðeins 6 skotum utan af velli), gaf 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Martin bætti við 9 stigum og tók 5 fráköst. Texti: Karfan.is