Gabríel Sindri: Draumur síðan ég var 13 áraPrenta

UMFN

Gabríel Sindri Möller mun næstu fjögur árin stunda nám í Bandaríkjunum og leika með skólaliði Augusta Jaguars. Okkar maður lék með Skallagrím á síðustu leiktíð í Domino´s-deild karla en eltir nú drauma sína vestur um haf. UMFN.is ræddi við Gabríel sem þegar er kominn til Bandaríkjanna og er óðar að kynnast nýja umhverfinu sínu.

Hvernig líst þér á ævintýrið framundan í Bandaríkjunum? Við hverju býst þú af lífinu þarna ytra?
Mér líst alveg svakalega vel á þetta ævintýri. Þetta hefur verið draumurinn minn síðan ég var 13 ára og hef ég alltaf hugsað um þetta markmið þegar ég var að fara á aukaæfingar og leggja mig fram í námi. Ég býst við að kynnast fullt af skemmtilegu fólki í skólanum og í kringum körfuna. Kaninn hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér þegar ég er að ferðast erlendis þannig ég er mjög spenntur að fara í þetta umhverfi. Þetta er sterkur Division 2 skóli þar sem þeir unnu deildina þeirra í fyrra, komust í 16. liða úrslit í NCAA division 2 mótinu og enduðu númer 15 í landinu. Skemmtileg tilviljun að kaninn sem skrifaði undir hjá Keflavík var Senior hjá liðinu í fyrra.

Hvað á svo að fara að læra?
Ég mun læra sjúkraþjálfun. Hef líka mikinn áhuga á viðskiptafræði og tók marga áfanga tengt því í FS. Sjúkraþjálfun varð fyrir valinu og það gæti alveg verið að ég tek viðskiptafræði auka í framtíðinni.

Hvernig lítur þú til baka á tímann þinn í Njarðvík og svo auðvitað reynslunni frá liðum eins og Skallagrím og Hamri.
Njarðvík gerði mig klárlega að þeim leikmanni sem ég er í dag eftir 13 skemmtileg ár með frábærum þjálfurum, styrktarþjálfara og liðsfélögum. Þótt að ég spilaði ekki mikið með meistaraflokki Njarðvíkur þá hjálpaði það mér helling að vera á erfiðum æfingum og æfa með þeim bestu í félaginu. Reynslan sem ég fékk að spila með meistararflokki hjá Gnúpverjum, Hamri og Skallagrím gerði helling fyrir mig og hjálpaði mér að komast á háskólastyrk.

Sjáum við GS Möller í Njarðvíkurbúning í framtíðinni?
Markmiðið er alltaf að komast í atvinnumennsku eftir fjögur ár í háskólaboltanum en þegar ég spila á Íslandi aftur þá er Njarðvík mjög líklegur áfangastaður.

Hvernig líst þér á komandi tímabil í Njarðtaks-gryfjunni?
Tímabilið lítur mjög vel út, góður kjarni og ég spái þeim klárlega topp 3 í deildinni. Þeir mæta svo brjálaðir inn í úrslitakeppnina eftir klúður í 8 liða úrslitum í fyrra og komast í Finals á móti KR.