Lokahóf yngri flokka UMFN fór fram í gær og voru veittar viðurkenningar fyrir veturinn. Yngstu iðkendur félagsins höfðu lokið tímabilinu á sameiginlegu lokahófi Keflavíkur og Njarðvíkur deginum á undan þar sem spilaðir voru leikir og afhent viðurkenningarskjöl fyrir veturinn. 7.flokkur og eldri héldu svo uppá sitt lokahóf í Ljónagyfjunni í gær.
Áslaugar og Elfarsbikararnir afhentir
Bikararnir eru afhentir efnilegustu leikmönnum félagsins á yngriflokka aldri og þeim sem eru fyrirmyndir fyrir yngri leikmenn utan sem innan vallar. Þeir eru veittir leikmönnum sem hafa lokið grunnskóla.
Áslaugarbikarinn er nú afhentur í áttunda sinn en hann er gefinn til minningar um Áslaugu heitinar Óladóttur af fjölskyldu hennar. Elfarsbikarinn hefur verið afhentur í 31 ár og er það nú í áttunda sinn sem hann er einungis fyrir drengi í yngri flokkum félagsins, eftir að Áslaugarbikarinn bættist við. Elfarsbikarinn er gefinn af fjölskyldu Elfars heitins Jónssonar. Bæði Áslaug og Elfar voru virk í starfi körfunnar í Njarðvík og fulltrúar frá fjölskyldum þeirra afhentabikarana í gær. Það má geta þess að þessir bikarar eru veittir leikmönnum sem hafa lokið grunnskóla. Það voru Valgeir Ólason bróðir Áslaugar sem afhenti bikarinn fyrir hönd fjölskyldu Áslaugar og Helgi Már Guðbjartsson sem afhenti bikarinn fyrir hönd fjölskyldu Elfars.
Áslaugarbikarinn í ár hlaut Helena Rafnsdóttir leikmaður stúlknaflokks- og meistaraflokks félagsins. Helena var lykilmaður í meistaraflokki í vetur sem varð Íslandsmeistari í Subway deildinni og var það fyrsti Íslandsmeistaratitill Njarðvíkur í meistaraflokki í 10 ár. Hún átti frábæran leik í oddaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn þar sem liðið fangaði titlinum stóra. Helena er flott fyrimynd fyrir unga leikmenn bæði utan og innan vallar. Helena var nú í vor valin í æfingahóp A liðslið Íslands sem mun hefja æfingar nú um helgina. Við óskum Helenu innilega til hamingju.
Elfarsbikarinn í ár hlaut Elías Bjarki Pálsson leikmaður drengja-, unglinga- og meistaraflokks. Hann var lykilmaður í drengja og unglingaflokki í vetur. Elías átti marga flotta leiki , til að mynda var hann valinn maður leiksins í úrslitaleik drengjaflokks um meistaratitilinn í 2.deild þar sem unnu titilinn. Hann stóð sig einnig vel með meistaraflokki og nýtti þær mínutur sem hann fékk vel til að sína að hann mun gera tilkall í stærra hlutverk í því liði á næsta vetri. Elías Bjarki er flott fyrimynd fyrir unga leikmenn bæði utan og innan vallar. Elías var valin í landsliðshóp U18 ára liði Íslands sem mun taka þátt í Norðurlandamóti Evrópukeppni í sumar. Við óskum Elíasi Bjarka innilega til hamingju.
Farið yfir starf vetrarins
Það er flottur vetur að baki þar sem voru 260 iðkendur skráðir í yngriflokkastarfið okkar. Á næstu mánuðum og árum er von á starfið stækki en frekar með nýju flottu íþróttahúsi við Stapaskóla í Innri Njarðvík.
Það voru spilaðir gríðarlegur fjöldi leikja, krakkarnir ferðuðust um allt land til að spila körfubolta og einnig voru mörg fjölliðamót haldin hér í Njarðvík. Allt gekk þetta eins og í sögu og framtíðin björt hjá þessum flottu krökkum.
Eitt stærsta íþróttamót landsins er haldið hér í bæjarfélaginu á hverju ári og orðið mikilvægur þáttur í okkar íþróttabæ sem við viljum vera þekkt fyrir að vera.
Því miður höfum við þurft að fresta því tvisvar vegna Covid 19 faraldursins. Því var mjög ánægulegt að geta haldið mótið nú í ár og mikil eftirvænting hjá krökkunum um að fá að spila aftur á þessu frábæra móti.
Nettómótið gekk mjög vel í ár eins og vant er og mikil ánægja hjá þeim liðum sem komu á mótið.
Þetta mót sem haldið er í sameiningu af unglingaráðum Njarðvíkur og Keflavíkur er stærsta einstaka fjáröflun félaganna. Það gerir þeim kleift að halda út eins öflugu félagsstarfi og raun ber vitni, með það að markmiði að halda æfingagjöldum í lágmarki. Þetta væri ekki hægt án ómetanlegrar vinnu fjölda sjálfboðaliða sem koma að mótinu , t.d. voru 140 dómarar sem eru einstaklingar allir tengdir félögunum.
26 leikmenn í æfingahópa yngri landsliða Íslands
Gríðarlegur fjöldi leikmanna úr yngriflokkastarfinu okkar fer í gegnum yngri landslið Íslands og uppí meistaraflokk félagsins og erum við verulega stolt af því. Höfum við trú á að þessi þróun haldi áfram næstu árin.
UMFN átti 26 leikmenn sem voru valin í æfingahópa yngri landslið Íslands nú í vetur og í vor. En það er leikmenn úr 8.flokki og eldi. Óskum þeim til hamingju og gangi þeim sem best í komandi verkefnum.
Leikmenn sem eru valdir til að spila fyrir Íslandshönd fara ýmis alþjóðleg mót, Norðurlandamót og í Evrópukeppni. Einnig má nefna það flotta starf sem er í kringum krakkana okkar í landsliðunum en unglingaráð í samstarfi við foreldra heldur alltaf utan um skipulagða söfnun fyrir krakkana okkar sem eru valin í þessi landsliðsverkefni. Það er mjög kostnaðarsamt að taka þátt í svona verkefnum.
Mörg áhugaverð verkefni í gangi
Aðsókn á morgunæfingarnar hefur verið góð og gaman að sjá hversu margir sýna íþróttinni svona mikinn metnað, æfingarnar eru þrisvar í viku kl 7 á morgnana fyrir skóla , tvisvar sinnum í Ljónagryfjunni og einu sinni í Akurskóla. En við byrjuðum með morgunæfingar í Akurskóla í fyrsta sinn í vetur.
Einnig var áfram boðið upp á styrktarþjálfun í vetur í umsjón styrktarþjálfara félagsins Ólafs Hrafns Ólafssonar og verður áfram í boði yfir sumartímann en það er í fyrsta skipti sem það er gert. En styrktarþjálfun er mikilvægur partur af íþróttinni.
Áhugavert verkefni sem hófst í vetur var verkefni með Haus hugarþjálfun. En Haus hugarþjálfun veitir íþróttafólki, þjálfurum og íþróttaliðum fræðslu og þjálfun um hvenig eigi að styrkja hugarfarslega þætti sem er grundvöllur árangurs og ánægja í íþróttum. Verkefnið gekk vel og sýndu leikmenn því mikinn áhuga. Miklar líkur á því að það verði haldið áfram á næstu leiktíð.
Samstarfsverkefni við félag utan landsteinanna var komið á. Spænska félagið Paterna og Njarðvík hófum samstarf í vetur, en Paterna er dótturfélag Valencia Basket sem er eitt allra stærsta körfuboltafélag Evrópu. Leikmenn á stúlknaflokksaldri komu hingað til Njarðvíkur í heimsókn, æfðu með okkar liðum og spiluðu svo leiki við stúlknaflokkinn okkar. Í vor fóru svo okkar stúlkur til Paterna í svipaða heimsókn og gekk hún mjög. Samstarfið mun halda áfram og er nú á planinu að halda þjálfaranámskeið í sumar þar sem reyndur þjálfari frá Paterna kemur og miðlar sinni reynslu til okkar þjálfara.
Agnar og Bylgja heiðruð
Nú á dögunum fengu tveir þjálfarar okkar hjá yngri flokkum gullmerki félagsins, það voru þau Agnar Mar Gunnarsson og Bylgja Sverrisdóttir sem hafa sinnt ómetanlegu starfi fyrir félagið í áratugi, bæði í þjálfun og almennum störfum í kringum félagið. Það eru fá félög sem hafa þjálfara eins og þau innan sinna raða. Bylgja var að ljúka sínu 20.tímabili í þjálfun og Aggi 24.tímabilinu sínu.
Guðný Karlsdóttir kveður
Guðný Karlsdóttir lætur brátt af störfum sem formaður barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og með henni úr ráðinu gengur eiginmaður hennar Hjörvar Örn Brynjólfsson. Þau hjónin voru heiðruð á síðasta deildarleik meistaraflokks karla í vetur og tóku þar við gjöf frá unglingaráði. Síðustu ár hafa þau hjónin unnið gríðarmikið og gott starf fyrir yngri flokkana í Njarðvík.
Allar viðurkenningar vetrarins
7.flokkur stúlkna
Mestu framfarir: Margrét Rós Valdimarsdóttir
Efnilegasti leikmaður: Kara Sif Gunnarsdóttir
Besti leikmaður: Daníela Björg Eyjólfsdóttir
7. flokkur drengja
Mestu framfarir: Albert Guðmundsson
Efnilegasti leikmaður: Logi Örn Logason
Besti leikmaður: Almar Orri Jónsson
8. flokkur drengja
Mestu framfarir: Kristinn Einar Ingvason
Besti leikmaður: Patrik Joe Birmingham
8.flokkur stúlkna
Mestu framfarir: Hólmfríður Eyja Jónsdóttir
Efnilegasti leikmaður: Ásta María Arnardóttir
Besti leikmaður: Sara Björk Logadóttir
9.flokkur stúlkna
Mestu framfarir: Hildur Rún Ingvadóttir
Efnilegasti leikmaður: Kristín Björk Guðjónsdóttir
Besti leikmaður: Hulda María Agnarsdóttir
9. og 10. flokkur drengja
Mestu framfarir: Sæþór Kristjánsson
Efnilegasti leikmaður: Alexander Freyri Sigvaldason
Efnilegasti leikmaður: Heimir Gamalíel Helgason
Besti leikmaður: Salvar Gauti Ingibergsson
10.flokkur stúlkna
Mestu framfarir: Elín Bjarnadóttir
Efnilegasti leikmaður: Ólafía Sigríður Árnadóttir
Besti leikmaður: Dzana Crnac
Stúlknaflokkur
Mestu framfarir: Katrín Ósk Jóhannsdóttir
Efnilegasti leikmaður: Birna Jóhannsdóttir
Besti leikmaður: Lovísa Bylgja Sverrisdóttir
Drengja og unglingaflokkur
Mestu framfarir: Ingólfur Ísak Kristinsson
Mestu framfarir: Sigurður Magnússon
Efnilegasti leikmaður: Elías Bjarki Pálsson
Besti leikmaður: Jan Baginski