Jeb með 32 stig í sigri gegn HaukumPrenta

Körfubolti

Tvö stig í gærkvöldi gegn baráttuglöðum Haukum. Lokatölur 99-89 þar sem varnarleikur okkar manna í grænu small saman á lokasprettinum og gerði útslagið. Jeb Ivey var stigahæstur með 32 stig, 3 fráköst og 5 stoðsendingar.

Það virðist loða við Njarðvíkurliðið um þessar mundir að mæta á hælunum til leiks en það sýnir þrautsegju og samheldni að klára verkefnin. Eftir að Haukar með Marquese Oliver í broddi fylkingar höfðu sett 49 stig á okkur í fyrri hálfleik náði liðið að þétta varnarleikinn í síðari hálfleik en þó aðallega í fjórða leikhluta sem fór 30-17.

En það voru fleiri en Jeb sem lögðu sín lóð á vogarskálarnar í gær, Mario var með tvennu, 15 stig og 14 fráköst, en þetta var hans þriðja tvenna í röð. Þá var Kristinn Pálsson líka með tvennu í gær eða 13 stig og 12 fráköst og ekki langt frá tvennunni var Maciej Baginski með 20 stig og 7 stoðsendingar.

Eftir leikinn í gær er Njarðvík í 2. sæti deildarinnar ásamt Keflavík og Stjörnunni með 8 stig en Tindastóll er eina taplausa lið deildarinnar á toppnum með 8 stig og mætir KR í DHL-Höllinni í kvöld.

Næsti leikur okkar Njarðvíkinga er á sunnudag í Geysis-bikarnum gegn Val í 32-liða úrslitum og hefst sá leikur kl. 19:15 í Ljónagryfjunni en fyrst er það kvennaliðið sem á morgun fær Tindastól í heimsókn kl. 13:00 í 1. deild kvenna.

Tölfræði leiksins
Viðtal við Einar Árna eftir leik – karfan.is
Viðtal við Jeb Ivey eftir leik – karfan.is
Umfjöllun og viðtöl – vísir.is
Umfjöllun – mbl.is


Mynd/ JBÓ – Ivey sækir að Haukavörninni í gær.