Tímabilið 2018-2019 er nú á enda hjá meistaraflokkum karla og kvenna í Njarðvík. Tap í oddaleik gegn ÍR í gærkvöldi í 8-liða úrslitum Dominosdeildarinnar og kvennaliðið lá í undanúrslitum 1. deildar gegn Fjölni. Karlaliðið lék til bikarúrslita gegn Stjörnunni og mátti fella sig við silfur í Geysisbikarnum en græni þráður vetrarins er vafalítið Ljónahjörðin sem stutt hefur myndarlega við bakið á liðunum og starfinu í vetur – kærar þakkir fyrir ykkar framlag!
Vissulega fara næstu dagar í að sætta sig við orðinn hlut en boltinn stoppar aldrei og innan tíðar höldum við öll saman aftur að teikniborðinu til að leggja drög að næstu baráttu og framtíðinni. Breytingar eru alltaf einhverjar í öllu starfi og eins og kom í ljós í gær þá hefur bakvörðurinn Jeb Ivey ákveðið að hætta en frá því greindi hann í viðtali við Svala Björgvinsson á Stöð 2 Sport eftir leik. Ivey sagði í viðtalinu „að svona væri boltinn, það þyrfti að taka góðu stundunum sem og þeim slæmu og þess vegna elskum við þennan leik.“
Fyrir fánann og UMFN
Stjórn KKD UMFN