Í fyrsta skipti í þó nokkurn tíma á Njarðvík tvö lið í bikarúrslitum yngri flokka kvenna. Annað af þeim liðum er stúlknaflokkur félagsins. Þetta lið er að mestu skipað stelpum sem einnig eru leikmenn meistaraflokks félagsins og hafa því verið í ströngu prógrammi í allan vetur.
Það hefur þó ekki aftrað þeim frá því að vera búnar að tryggja sér sæti í bikarúrslitunum. Þar mæta þær ekki bara einhverju liði, heldur nágrönnum og vinkonum úr Keflavík.
Leið liðsins í úrslitin var heldur óvenjuleg. Einungis sex lið voru skráð til keppni og fyrsti leikur okkar var í 8 liða úrslitum. Þar mættu stelpurnar liði Breiðabliks. Þremur dögum fyrir leikinn mættust sömu lið í deildarkeppni stúlknaflokks og þar höfðu Blikar betur og því ljóst að bikarleikurinn yrði erfiður. Stelpurnar voru fljótar að gleyma fyrri úrslitum og unnu góðan sigur, 54-45.
Fyrir dráttinn í undanúrslitum áttu stelpurnar sér þann draum einan að fá heimaleik og þeim varð að ósk sinni þegar þær fengu lið KR þegar dregið var upp úr vasanum góða.
Sá leikur fer svo sannarlega í sögubækurnar.
Lið Njarðvíkur varð fyrir blóðtöku nokkrum dögum fyrir leik þegar leikstjórnandi liðsins og fyrirliði, Björk Gunnarsdóttir varð fyrir meiðslum í leik með meistaraflokki og því ljóst að aðrir leikmenn þyrftu að stíga upp og fylla skarð hennar. Liðið gíraði sig upp og voru mættar snemma í Ljónagryfjuna í mat og pepp, staðráðnar að klára verkefnið. Mikil stemming var í hópnum þar til símtal barst frá skrifstofu KKÍ þess efnis að verið væri að skoða hvort leiknum yrði frestað vegna veðurs. Skömmu síðar barst tilkynning um að leiknum yrði frestað um 30mín og staðan endurmetin. Úr varð að mótastjóri setti leikinn á þar sem engar forsendur væru fyrir frestun.
Aftur spratt gleðin og baráttuandinn fram en stóð þó stutt yfir. KR liðið hafði þá samband við mótastjóra og gáfu leikinn þar sem hluti foreldra treystu sér ekki að senda börnin þeirra á brautina. Því varð öll þessi spenna að engu og úrslitin skráð, 20-0.
Þetta hefur þó gert það að verkum að stelpurnar eru enn staðráðnari í að klára þetta bikar verkefni og ætla sér alla leið. Til þess að svo verði þurfa þær á stuðningi að halda og skora á alla sem vettlingi geta valdið, að mæta í Höllina á sunnudaginn kl 18:00 og hvetja þær til dáða. Þessi hópur er einstaklega samstilltur og flottur og það verður enginn svikin að mæta og fylgja þeim síðasta spölinn á þessari bikarleið sinni.
Áfram Njarðvík
Lárus Ingi Magnússon Þjálfari.