Natasha Anasi-Erlingsson gengur til liðs við Grindavík/Njarðvík!
Hafsentinn, Natasha Anasi hefur gert samning við Grindavík/Njarðvík að leika með liðinu út árið 2026 hið minnsta.
Natasha sem er fædd árið 1991 kom fyrst til Íslands árið 2014 eftir að hafa stundað nám og spilað fótbolta með Duke háskólanum árin 2010-2013.
Ferill Natöshu á Íslandi byrjaði hjá ÍBV, áður en hún spilaði með Keflavík, Breiðablik, Brann í Noregi og nú síðast Val.
Árið 2019 fékk Natasha íslenskan ríkisborgararétt en eins og margir eflaust vita þá er Natasha gift Rúnari Inga Erlingssyni, þjálfara meistaraflokks karla í körfubolta hjá Njarðvík.
Fyrsti landsleikur Natöshu fyrir Íslands hönd var árið 2020, en síðan þá hefur hún komið við sögu í 9 landsleikjum og skorað 1 mark fyrir Ísland.
Nú síðast var hún í lokahóp landsliðsins sem fór á EM í Sviss í sumar.
Alls hefur Natasha leikið 211 meistaraflokksleiki á vegum KSÍ á Íslandi og skorað í þeim 57 mörk, en 117 þeirra leikja hafa komið í Bestu deildinni, sem Grindavík/Njarðvík mun spila í sumar.
Því er ljóst að um mikla styrkingu fyrir liðið er að ræða og hlökkum við til að sjá Natöshu í bleika og hvíta búningnum!
Grindavík/Njarðvík býður Natöshu hjartanlega velkomna til liðsins!
