Ljónin hafa tekið 1-0 forystu í 8-liða úrslitum gegn ÍR með 76-71 sigri í fyrsta leik. Barningur og lítið skorað en okkar menn fastir fyrir og kláruðu verkið og lönduðu afar mikilvægum sigri. Elvar Már Friðriksson var atkvæðamestur í kvöld með 16 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar og einn langdrægan þrist sem kom á spennustund og gerði eiginlega útslagið í leiknum.
Ólafur Helgi Jónsson var frábær í kvöld, kom grimmur inn af bekknum, skoraði ekki en tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar og var svaklegur á varnarenda vallarins! Fimm leikmenn voru með 10 stig eða meira og sá sjötti, Mario, skilaði 9 stigum.
Kevin Capers var sendur úr húsi í kvöld í liði ÍR fyrir að slá Jón Arnór Sverrisson í andlitið, búast má við því að hann gæti fengið leikbann í næsta leik en það er í höndum aga- og úrskurðarnefndar KKÍ.
Annar leikurinn í seríunni er í Hertz-hellinum sunnudaginn 24. mars næstkomandi kl. 19:15. Ljónahjörðin var öflug í stúkunni í kvöld og það dugir ekkert annað en að fjölmenna á leik tvö og styðja okkar menn til sigurs!
Mynd/ JB – Elvar Már sækir að körfu ÍR í kvöld en hann komst oft í hann krappann í leiknum.