Kvennalið Njarðvíkur er komið á skrið í 1.deildinni og hafa nú unnið fjóra leiki í röð. Í kvöld sigruðu þær stöllur sínar í Breiðablik með 72 stigum gegn 58. Njarðvík tók frumkvæðið í leiknum strax í fyrsta leikhluta og það forskot gáfu þær aldrei á bátinn. Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum náðu Blikastúlkur að minnka muninn niður í 9 stig en nær komust þær ekki að þessu sinni.
Carmen Tyson Thomas var sterk í liði Njarðvíkur og hársbreidd frá þrennu með 22 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá Blikum var Berglind Ingvarsdóttir þeirra stigahæst með 18 stig. Njarðvíkurliðið er komið í 3. sæti deildarinnar með 14 stig og skaust þar með upp fyrir Blika sem sitja í 4. sætinu.