Rúnar Ingi stýrir Njarðvík næstu tvö tímabilPrenta

Körfubolti

Rúnar Ingi Erlingsson verður þjálfari Íslandsmeistara Njarðvíkur næstu tvö tímabil en hann skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Rúnar gerðir liðið að Íslandsmeisturum á nýafstaðinni leiktíð eftir sigur á Haukum í úrslitaseríu Subwaydeildar kvenna. Kristín Örlygsdóttir formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur sagði við þetta tilefni að það væri mikið fagnaðarefni að hafa Rúnar Inga áfram við stjórnartaumana. „Rúnar gerði frábæra hluti með liðið í vetur og sýndi þar og sannaði hve öflugur þjálfari hann er. Við bindum miklar vonir við samstarfið við Rúnar næstu árin og ætlum okkur áframhaldandi góða hluti með kvennaliðið okkar.”

Sjálfur hefur Rúnar ekki setið auðum höndum enda von um talsverðar breytingar á liðinu en eins og þegar hefur komið fram eru Helena Rafnsdóttir og Vilborg Jónsdóttir báðar á förum í háskólanám til Bandaríkjanna. Við ræddum stuttlega við Rúnar við gerð nýja samningsins og þar stóð ekki á svörunum þegar við spurðum hann hvenær undirbúningur fyrir næstu leiktíð hæfis: „strax á morgun, 1. júní.”

Viðtal við Rúnar Inga rétt eftir undirskrift hér að neðan.