Sigur gegn TindastólPrenta

Körfubolti

Já það er aðeins búið að snúa uppá málsháttinn í fyrirsögninni, en þetta hentar. En það voru Njarðvíkingar sem stigu stórt skref í kvöld þegar þeir sigruðu lið Tindastóls með 107 stigum gegn 99 eftir framlengdan leik. Njarðvíkingar leiddu með 15 stigum í hálfleik en líkt og lungan af vetri glopruðu þeir því forskoti niður í seinni hálfleik. En stóra skref þeirra var það að þeir náðu loksins að klára með sigri. Gríðarlega mikilvægur sigur hjá grænum þar sem pakkinn er ansi þéttur fyrir neðan efstu tvö. Tindastólsmenn eygja vissulega séns í deildarmeistaratignina en sú von varð vel dælduð með þessu tapi. Framan af leik voru það Njarðvíkingar sem voru að spila glimmrandi góða vörn. Þeir spiluðu fast og Tindastólsmenn gersamlega meðvitundalausir fram að hálfleik. Myron Dempsey var þeirra langt bestur framan af leik og það var í raun það eina sem Njarðvíkingar hefðu þurft að hafa áhyggjur af. Logi Gunnarsson hefur verið að taka sér gersamlega nýtt hlutverk í liði Njarðvíkinga nú í síðustu leikjum. Hann hefur verið að sýna fram á fínan varnarleik og í kvöld var það Darrel Lewis sem fékk Loga á sig líkt og frakka. Koma Stefan Bonneau til liðsins og hans meðaltal á 30+ stigum gefur Loga vissulega slaka í sóknarleiknum. Eftir að hafa leitt 55:40 í hálfleik var undirritaður meðvitaður um þá staðreynd að þessi staða hefur áður verið uppi hjá Njarðvíkingum, og þeir hafa farið ansi illa að ráði sínu á lokasprettinum í sínum leikjum í vetur. Og það kom á daginn en þó ekki fyrr enn í síðasta leikhluta leiksins að Tindastólsmenn hófu að saxa hægt og bítandi á forskotið. Það virtist vera þannig að Njarðvíkingar ætluðu að hreinlega tefja, líkt og í fótboltanum. Það hægðist á leik þeirra og það virðist henta illa fyrir þetta lið. Þegar um mínúta var eftir voru Tindastólsmenn búnir að jafna leikinn með mikill seiglu ofaní klaufalega sóknartilburði Njarðvíkinga. Stefan Bonneau meiddist á ögurstundu fyrir þá Njarðvíkinga þegar um 2 mínútur voru eftir og góð ráð dýr. Kappinn fór út af og inná kom Ragnar Helgi Friðriksson, svell kaldur að því er virtist og átti eftir að koma í ljós. En útlitið dökknaði heldur betur hjá Njarðvíkingum þegar Darrel Flake setti niður þrist þegar um 25 sekúndur voru til loka leiks og allt í einu Tindastóll komnir í þriggjastiga forystu. En þá var komið að Ragnari Helga hjá Njarðvík. Í næstu sókn fékk Ragnar boltann fyrir utan þriggjastiga línuna í horninu, lagði taugarnar til hliðar og smellti huggulegum þrist og jafnar leikinn í 88 stigum á hvort lið. Allt ætlaði að keyra um koll hjá stuðningsmönnum Njarðvíkinga en þarna voru um 20 sekúndur eftir af leiknum og Tindastólsmenn áttu síðustu sóknina. Það kom svo sem fáum í húsinu á óvart að Darrel Lewis átti að klára dæmið en skot hans geigaði og því var framlengt. Í framlengingunni voru Njarðvíkingar einfaldlega sterkari. Stefan Bonneau kom aftur inná og píndi sig í gegnum krampa á kálfa sem hann fékk. Framlenging í járnum þangað til að Hjörtur Hrafn Einarsson rak síðasta naglan í kistu þeirra Tindastólsmanna með þrist þegar um mínúta var eftir og kom Njarðvíkingum í 5 stiga forystu. Tindastólsmenn náðu sér aldrei eftir þetta högg frá Hirti og sigur þeirra grænu í höfn. Stefan Bonneau maður leiksins að þessu sinni. 44 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar segja allt sem segja þarf um það val. Ragnar Helgi hinsvegar fær prik fyrir að mæta tilbúin til leiks á ögur stundu. Þessir tveir litlu rassar eru valdar af þeirri fyrirsögn sem þessari frétt fylgir. Hjá Tindastól var það Myron Dempsey sem dró vagninn framan af en Darrel Lewis hysjaði upp um sig brækurnar í seinni hálfleik og var þeirra atkvæðamestur með 28 stig. Punktar – Stefan Bonneau átti eitt blokk sem var nánast uppá fjórðu hæð (vonandi að Sport TV sýni það í Highlights) – Tindastóll fékk 33 stig frá bekknum á meðan Njarðvíkingar fengu 15 – Njarðvíkingar náðu mest 16 stiga forystu, en Tindastóll náði mest þriggjastiga forystu, en það var þegar um 20 sekúndur voru til loka leiks. Njarðvík-Tindastóll 107-99 (20-19, 35-21, 20-23, 13-25, 19-11) Njarðvík: Stefan Bonneau 44/9 fráköst/8 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 16/8 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 14, Mirko Stefán Virijevic 13/9 fráköst, Ragnar Helgi Friðriksson 8, Snorri Hrafnkelsson 7/5 fráköst, Ágúst Orrason 5, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Maciej Stanislav Baginski 0, Magnús Már Traustason 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Jón Arnór Sverrisson 0. Tindastóll: Darrel Keith Lewis 28/10 fráköst, Myron Dempsey 20/13 fráköst, Svavar Atli Birgisson 16, Darrell Flake 12/8 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 8/7 stoðsendingar/5 stolnir, Helgi Freyr Margeirsson 6, Helgi Rafn Viggósson 4/5 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 3, Viðar Ágústsson 2, Sigurður Páll Stefánsson 0, Finnbogi Bjarnason 0, Jónas Rafn Sigurjónsson 0. Dómarar: Jón Bender, Davíð Kristján Hreiðarsson, Jóhannes Páll Friðriksson Mynd og Texti: Karfan.is