Skröltormurinn hægri hönd Einars!Prenta

Körfubolti

Halldór Karlsson verður aðstoðarþjálfari Einars Árna Jóhannssonar með karlalið Njarðvíkur í Domino´s-deildinni á komandi leiktíð. Gengið var frá ráðningu Halldórs á dögunum. Óhætt er því að segja að „Skröltormurinn“ sé mættur aftur í úrvalsdeild en einkennismerki Halldórs eftir gott hark á parketinu var þeytivinduhnefinn sem minnti óneitanlega á hringlu skröltormsins.

Halldór hefur á síðustu árum þjálfað yngri flokka í Njarðvík en hann var annar tveggja fyrirliða í síðasta Íslandsmeistaraliði Njarðvíkur árið 2006 en þess má til gamans geta að þar var Einar Árni einnig þjálfari en hann og Halldór eru æskuvinir af Brekkustígnum. Þá var Jeb Ivey einnig liðsmaður í meistaraliðinu 2006 svo þessir ágætu herramenn eru sameinaðir á ný við titlaveiðar í Ljónagryfjunni.

Mynd/ Friðrik Ragnarsson formaður og Halldór Karlsson nýráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.