Njarðvíkingar eru komnir í undanúrslit Domino´s-deildar karla eftir 3-2 sigur á Stjörnunni í 8-liða úrslitum. Oddaviðureign liðanna fór fram í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem stemmningin var einu orði sagt frábær! Lokatölur 92-73 þar sem varnarleikur heimamanna var feykisterkur og sóknarleikurinn leiddur áfram af Stefan „Ég skora þegar ég vil“ Bonneau. Garðbæingum var ekki til setunnar boðið og gerðu átta fyrstu stig leiksins, Jón Orri Kristjánsson opnaði leikinn með troðslu og í kjölfarið fylgdu þristar frá Shouse og Atkinson og Njarðvíkingar tóku leikhlé eftir tæplega tveggja mínútna leik. Pása heimamanna gaf vel því Njarðvíkingar komu út og breyttu stöðunni í 13-12 og nú var komið að Garðbæingum að taka leikhlé. Það gaf einnig vel fyrir gestina að biðja um fund því þeir héldu í 8-0 kafla og komust í 13-20 og ef þetta voru ekki nægilegar sveiflur þá lokuðu Njarðvíkingar leikhlutanum með 7-2 spretti og lauk honum með flautukörfu í teignum hjá Bonneau sem hafði fremur hægt um sig í fyrsta leikhluta með aðeins 4 stig í liði Njarðvíkinga. Atkinson var að sama skapi beittastur til að byrja með hjá Stjörnunni með 11 stig í fyrsta leikhluta og staðan 20-22 fyrir Stjörnuna. Heimamenn í Ljónagryfjunni mættu í varnargallanum inn í annan leikhluta og héldu Stjörnunni í 11 stigum. Snorri Hrafnkelsson setti fordæmið og varði nánast allt sem nálgaðist körfuna á tíma. Ólafur Helgi var einnig drjúgur á varnarendanum en Njarðvíkingar voru samt í sóknarbasli framan af. Þegar losnaði um sóknartregðuna var það auðvitað Bonneau sem var að salla þessu niður enda hafði hann hægt um sig til að byrja með og var farið að kitla í gikkfingurinn. Þristur frá kappanum kom Njarðvík í 41-31og heimamenn leiddu 45-33 í hálfleik. Stefan Bonneau gerði 14 stig í leikhlutanum og var með 18 stig og 7 fráköst í hálfleik en hjá Stjörnunni var Jeremy Atkinson með 15 stig og 11 fráköst Skotnýting liðanna í hálfleik Njarðvík: Tveggja 50% – þriggja 35% og víti 75% Stjarnan: Tveggja 28% – þriggja 33% og víti 77% Logi Gunnarsson opnaði síðari hálfleik með þriggja stiga körfu og kom Njarðvíkingum í 48-36. Hamagangur á heimamönnum þessar fyrstu mínútur síðari hálfleiks og góð stemmning en Marvin Valdimarsson keyrði þá sína menn í gang með því að setja tvo góða þrista og smám saman tókst Garðbæingum að finna varnartaktinn. Þriðji leikhluti reyndist bestur á vörnina hjá Stjörnunni til þessa, héldu Njarðvíkingum í 16 stigum og minnkuðu muninn í 61-55 fyrir fjórða og síðasta hluta. Þeir félagar Stefan Bonneau og Mirko Stefán tóku góðar rispur fyrir heimamenn í fjórða leikhluta. Eftir fjögurra mínútna leik í fjórða höfðu aðeins samtals 12 stig verið skoruð og Njarðvíkingar leiddu 69-59 og þeir Ágúst Angantýsson og Marvin Valdimarsson báðir á fjórum villum í liði Stjörnunnar. Atkinson setti nauðsynlegan þrist fyrir Garðbæinga og minnkaði muninn í 71-62. Körfuknattleiksunnendur hugsðu sér kannski gott til glóðarinnar á þessum tímapunkti og að í garð gengi æðisgenginn lokakafli. Sú varð ekki rauninn, þessum þrist frá Atkinson var svarað með einum langdrægum frá Bonneau og svona gekk þetta. Njarðvíkingar örkuðu hægt en örugglega lengra frá gestum sínum og unnu að lokum verðskuldaðan 92-73 sigur og eivígið unnu þeir 3-2. Stefan Bonneau gerði 36 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í leiknum og Logi Gunnarsson bætti við 17 stigum, 4 fráköstum og 5 stoðsendingum. Hjá Stjörnunni var Jeremy Atkinson með 25 stig, 16 fráköst og 4 stoðsendingar og Justin Shouse bætti við 17 stigum, 4 fráköstum og 7 stoðsendingum. Texti og Mynd: karfan.is