Stúlknaflokkur lék í kvöld gegn Keflavík í Ljónagryfjunni og varð úr hörku spennandi leikur. Keflavíkurliðið hefur verið sigursælt í gegnum tíðina og þær mættu sterkar til leiks og náðu fljótlega forystu. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 12-18.
Í öðrum leikhluta voru Njarðvíkurstelpur hins vegar grimmar og söxuðu á forskot Keflavíkur og Svala Sigurðardóttir var atkvæðamikil í stigaskorinu hjá UMFN í leikhlutanum. Svala gerði fimm síðustu stig hálfleiksins og staðan 31-34 í hálfleik.
Stelpurnar sýndu svo á sér tvær hliðar í þriðja leikhluta. Keflavík skoraði 7 fyrstu stigin og staðan 31-41 en þá settu okkar stelpur í lás og skoruðu 11 stig í röð og leiddu 42-41 eftir þrjá leikhluta. Allt liðið var að leika vel í síðari hluta leikhlutans þar sem Björk og Júlía fóru fyrir liðinu í stigaskori en Hera Sóley, Ása og Birta Rún voru að spila hörku vörn eins og liðið allt.
Keflavíkurliðið reyndist svo sterkara á lokakaflanum og það reyndist okkar stelpum erfitt að missa Júlíu út í ökklameiðslum er 7 mínútur voru eftir og svo kom í ljós eftir leik að Karen Dögg hafði rifbeinsbrotnað í átökunum en hún harkaði af sér og kláraði leikinn.
Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir baráttuna í kvöld. Þær áttu virkilega flotta spretti gegn sterku Keflavíkurliði og alveg ljóst að stelpurnar ætla að láta til sín taka í vetur.
Næsti leikur liðsins verður gegn Haukum á þriðjudag en þá verður liðið líklega án Júlíu og Karenar sem er skarð fyrir skyldi en á móti verða Hulda Ósk og Helga Rún væntanlega komnar í slaginn á ný en þær eru frá vegna veikinda.
Leikurinn gegn Haukum á þriðjudag fer fram á Ásvöllum og hefst kl 21:00