Verðskuldað tap gegn GrindavíkPrenta

Körfubolti

Það voru Grindvíkingar sem komu, sáu og sigruðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni í kvöld þegar liðin mættust í Dominosdeild karla. Þegar yfirlauk höfðu Grindvíkingar skorað 90 stig gegn 77 stigum heimamanna og verðskuldaður sigur gestana leit dagsins ljós. Grindvíkingar leiddu með 10 stigum í hálfleik. Strax í upphafis leiks sást í raun í hvað stefndi. Grindvíkingar léku vörn sína fast, eða í raun eins fast og leikurinn leyfði. Sverrir Þór þjálfari þeirra þekkir þetta vel enda annálaður harður varnarmaður hér um árið. Fyrir leik hafði Stefan Bonneau verið með sýningar nánast í hverjum leik sem hann spilaði og Grindvíkingar ætluðu svo sannarlega ekki að taka þátt í einni slíkri. Bonneau var pressaður strax eftir skoraða körfu og þetta heppnaðist svo vel í fyrsta fjórðung að á tímum þurfti Logi Gunnarsson að stilla upp í leikkerfi. Það sem kom hinsvegar meira á óvart að Bonneau var að láta harða pressu Jóns Axels Guðmundssonar fara í taugarnar á sér. En þetta átti Bonneau eftir að hrista af sér að vissu leyti í gegnum leikinn. En það var Rodney Alexander sem stal senunni í þessum leik. Kappinn setti 20 stig í fyrsta fjórðung á Njarðvíkinga og engin héldu honum bönd í skoruninni. Rodney hafði áður komið í Ljónagryfjuna fyrir 3 árum síðan með ÍR og skoraði þá 42 stig þannig að honum virðist líða ágætlega á fjölum Njarðvíkinga. En hvað um það í hálfleik var Rodney búin að skora 30 stig og þegar yfir lauk voru 44 stig frá honum komin í sarpinn og áttu Njarðvíkingar engin svör í vörninni gegn honum. Og þetta er stór veikleiki á Njarðvíkurliðinu því þeir hafa ætíð lent í vandræðum gegn liðum sem hafa góða menn niðri á blokkinni (Tindastóll, KR) 10 stig skildu liðinn í hálfleik en í öðrum leikhluta áttu Njarðvíkingar sinn besta sprett í þessum leik. Stefan Bonneau fór þá mikinn og hafði skorað 20 stig í hálfleik. Í seinni hálfleik komu gestirnir með sömu ákefð í leikinn og í fyrri hálfleik. Þeir spiluðu áfram fast á Njarðvíkinga og spiluðu einnig skynsamlega í sókninni og nýttu sér vel það sem var að virka. Í varnarleik þeirra gáfu þeir Njarðvíkingum aldrei tommu eftir. Sóknarleikur Njarðvíkingar snérist að miklu leyti um þriggja stiga skotinn og leikur þeirra svo sannarlega féll að miklu leiti á þeirri 30% nýtingu sem þeir náðu í þeim skotum (27/8) Njarðvíkingar áttu prýðilegan sprett svo í fjórða leikhluta en áttu ekki erindi sem erfiði gegn stöðugu liði Grindvíkinga að þessu sinni. Sem fyrr maður leiksins að þessu sinni Rodney Alexander með 44 stig og 12 fráköst. Hjá Njarðvíkingum var Stefan Bonneau með 37 stig en undirritaður er orðin svo dekraður af hann fyrri frammistöðum að manni fannst hann ekkert sérlega góður í þessum leik. Vissulega undarlegt að skrifa þetta svona eftir að maðurinn skoraði 37 stig í leiknum og hugsanlega orðin ofdekraður af frammistöðu hans hingað til, en nýting hans í skotum var aðeins rétt rúmlega 30% og svo voru varnartilburðir hans slakir og virkaði áhugalaus á þeim enda vallarins. En álag á honum sóknarmegin er gríðarlegt og meðspilarar hans þurfa einfaldlega að hysja upp um sig. Jafnvel galopinn skot voru ekki að detta niður hjá þeim sem jú gerist endurum og eins. Grindvíkingar virkuðu mjög sannfærandi í þessum leik og þá sérstaklega varnarleikur þeirra. Þeir eru að endurheimta menn úr meiðslum og viðbótin í Jón Axel Guðmundssyni er gríðarlegur styrkur fyrir liðið. 5 leikir eftir í deild og með þessari spilamennsku ættu Grindvíkingar ekki að vera í erfiðleikum að hýfa sig upp í tölfunni. Mynd og texti: Karfan.is