Á morgun spilar karlalið UMFN síðasta deildarleik sinn á þessu tímabili þegar nágrannar okkar og erkifjendur úr Keflavík koma í heimsókn. Með sigri tryggja okkar menn sér Deildarmeistaratitilinn og þar af leiðandi heimavallarrétt út úrslitakeppnina.
Tap gæti jafnvel þýtt að titillinn endi hjá okkur ef Grindvíkingar sigra lið Þórs frá Þorlákshöfn en okkar menn vilja auðvitað tryggja þetta með sigri. Deildarmeistaratitilinn hefur ekki ratað í Ljónagryfjuna síðan árið 2007 og svo sannarlega allt of langt síðan.
Það er nokkuð ljóst að Keflvíkingar ætla sér að gera allt í sínu valdi til þess að koma í veg fyrir það og má gera ráð fyrir úrslitakeppnisbrag á þessum stórleik! Keflvíkingar eru ríkjandi Deildarmeistarar og í harðri baráttu um að enda meðal efstu fjórum sætum deildarinnar.
Frá því úrslitakeppnin hóf göngu sína árið 1984 höfum við Njarðvíkingar hampað deildarmeistaratitlinum 12 sinnum. Árin 1984, 1985,1986 og 1987 tóku okkar menn deildina og að lokum Íslandsmeistaratitilinn eftir harðan slag í úrslitakeppninni. Árin 1988 og 1989 unnum við deildina en náðum ekki í þann stóra, árið 1988 töpum við í lokaúrslitum gegn Haukum en árið 1989 vinna Keflvíkingar sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil.
Árið 1991 unnum við deildina og fylgdum því eftir með Íslandsmeistaratitli eftir fræga seríu í lokaúrslitum, einmitt gegn Keflavík. Einn merkasti deildartitill UMFN var svo árið 1995 en þá setti liðið met sem seint verður slegið. Þetta tímabilið voru spilaðir 32 deildarleikir og Njarðvík sigraði þá alla nema einn! Ekki einn einasti leikur tapaðist í Ljónagryfjunni og þetta lið fylgdi þessu vel eftir og tóku einnig þann stóra eftir mjög eftirminnilegt úrslitaeinvígi við Grindavík.
Árið 1996 tók UMFN aftur deildina en það voru Grindvíkingar sem enduðu á því að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil það tímabilið eftir sigur á Keflavík. Árið 2000 verður UMFN deildarmeistari en ná ekki að fylgja því eftir með þeim stóra en tímabilið eftir 2001 náum við í þá báða – Logi Gunnarsson sem ennþá spilar með UMFN ( 21ári seinna! ) var í ótrúlegu formi þetta tímabilið með rétt rúmlega 21 stig að meðaltali pr leik. Síðasti deildarmeistaratitill félagsins kom árið 2007 en þá voru það KR-ingar undir stjórn núverandi þjálfara okkar Njarðvíkinga sem unnu þann stóra eftir 3-1 sigur á okkur í lokaúrslitum.
Njarðvík hafa því fylgt deildarmeistaratitli eftir með því að vinna þann stóra í 7 skipti af þessum 12 sem deildin hefur unnist og farið alla leið í úrslitaeinvígið 9 sinnum (töp í lokaúrslitum árin 1988 og 2007) Það verður fjölmennt á pöllunum annað kvöld – fjölmennum og mætum tímanlega í burger og góðan félagsskap.
Höf: ÖK