Þetta árið eru 30 ár síðan Njarðvík varð bikarmeistari í stúlknaflokki. Eins og maðurinn sagði: „Þá var öldin önnur.” Ekki var nú mikið um að foreldrar væru að þvælast fyrir starfinu og því urðu leikmenn að láta hendur standa fram úr ermum þegar kom að því að finna búninga við hæfi.
Þessi myndarlegi leikmannahópur sá alfarið sjálfur um að verða sér úti um búninga því ekki var hægt að fá fyrir þær búninga í kvennasniði. Úr varð að ein almesta sleggjan í starfsliði Grunnskóla Njarðvíkur, Guðríður VIlbertsdóttir (Gauja), var fengin um borð í skútuna og hélt utan um búningamálin fyrir stelpurnar.
Þetta árið mættust Njarðvík og Grindavík í bikarúrslitum þar sem grænar höfðu betur 43-26. Leikurinn fór fram í Austurbergi í Reykjavík þar sem Auður Jónsdóttir varð stigahæst í Njarðvíkurliðinu með 14 stig. Þetta er leiktíðina 1992-1993 sem liðið verður bikarmeistari og því 30 ár síðan en tveimur árum áður höfðu þær einnig orðið Íslandsmeistarar.
Þess má geta að þetta var fyrsti bikartitill yngri flokka í Njarðvík í stúlknaflokki. Síðan 1993 og fram til ársins 2016 vann Njarðvík bikartitilinn í stúlknaflokki alls tvisvar sinnum en tímabilið 2016-2017 var stúlknaflokki breytt í unglingaflokk.
Aftari röð frá vinstri: Erla Ósk Jónsdóttir, Sonja Rut Jónsdóttir, Hólmfríður Karlsdóttir, Pálína Gunnarsdóttir, Sólveig Karlsdóttir.
Fremri röð frá vinstri: Dagmar Lóa Hilmarsdóttir, Magdalena Smáradóttir, Auður Jónsdóttir, Erla Svava Sigurðardóttir, Anna Hulda Einarsdóttir.