53 verðlaunahafar úr ÍRB sigra AMÍ 5. árið í röðPrenta

Sund

AMÍ var haldið á Akureyri um síðustu helgi. Í ár var horfið aftur til þess skipulags að hafa bæði yngri sundmenn og eldri en 15 ára saman og var því vel tekið. Margir minntust á það hversu gaman það væri að allt liðið keppti saman og hve mikið yngri krakkarnir nutu þess að sjá eldri sundmenn synda. Það var ekki bara vegna þessa sem helgin var frábær en veðrið lék við okkur og á bakkanum var risastór hópur stuðningsmanna ÍRB svo aðstæður gátu ekki verið betri.; ÍRB leiddi mótið frá byrjun og stimplaði inn árangur í hverri grein.; ÍRB vann 94 gull, 75 silfur og 55 brons. Við vorum með stórt og sterkt lið sem er vitnisburður um þá miklu vinnu sem sundmenn, þjálfarar og foreldrar leggja af mörkum. Við áttum 19% af sundmönnum á mótinu en tókum til okkar 28,5% af stigunum og 40% af gullverðlaunum! Samkvæmt reglum mótsins telja aðeins tveir sundmenn frá hverju liði í hverri grein (regla sem var innleidd fyrir 4 árum) og í því ljósi er þessi árangur enn merkilegri.; ÍRB náði 1745 stigum og var öruggt í fyrsta sæti en í öðru sæti voru Blikar með 893 stig og í því þriðja SH með 877 stig.; ÍRB átti 33 einstaklinga sem náðu að vera aldursflokkameistarar sem er stærri hópur heldur en mörg lið náðu að senda á mótið. Ennfremur náðu 48 einstaklingar frá ÍRB að vinna til verðlauna í einstaklingskeppni og alls náðu 53 úr liðinu að vinna til verðlauna þegar boðsund eru talin með af 60 manna liði. Óviðjafnanlegt! Alls náðu 59 sundmenn að vinna stig fyrir liðið (voru í topp 6) og sextugasti sundmaðurinn var í sjöunda sæti (einu sæti frá stigasæti) en sá sundmaður er aðeins 10 ára gamall. Alveg frábært lið!; Stefanía Sigurþórsdóttir var valin aldursflokkameistari í Telpnaflokki fyrir samanlagðan árangur í 800, 200 og 100 m skriðsundi en einnig hlaut Stefanía Ólafsbikarinn fyrir besta afrek á AMÍ fyrir 800 m skriðsund. Minningarsjóður Ólafs Þórs Gunnlaugssonar veitir styrki við lok AMÍ ár hvert.; Anthony Kattan fráfarandi yfirþjálfari ÍRB til fimm ára sagði: „ stefna okkar er að byggja frábært lið glaðra sundmanna sem skara fram úr á öllum sviðum, ekki bara í lauginni. Þetta varð raunin, jafnvel þó tveir okkar bestu sundmanna væru að keppa fyrir Ísland í Baku á Evrópuleikunum. Dýptin í liðinu okkar þýddi það að aðrir sundmenn gátu stigið upp og tekið við keflinu“.; „Þetta var frábær vika fyrir liðið okkar sem hefur bara aukið styrk sinn og forskot á Aldursflokkameistaramótinu á hverju ári síðan á fyrsta árinu mínu hér 2010/2011 þegar við náðum bikarnum aftur til okkar. Mikill vinna er að baki“; Sérstakar þakkir fá þeir foreldrar sem tóku að sér fararstjórn og unnu sleitulaust á mótinu til þess að krökkunum okkar liði sem best og væru södd og sæl-ekki auðveldasta vinnan. Þjálfararnir Eðvarð Þór Eðvarðsson og Steindór Gunnarsson sem er að snúa til baka sem yfirþjálfari eiga einnig skilið þakkir fyrir vinnu sína með yngstu sundmennina á AMÍ.; AMÍ var toppurinn á ótrúlega árangursríku ári hjá ÍRB. Við unnum flest verðlaun á öllum stóru meistaramótunum hér innanlands, AMÍ, ÍM50, ÍM25 og einnig 1. sæti í 1. deild kvenna á bikarmóti SSÍ og 2. sæti í karlaflokki á sama móti. Kristófer Sigurðsson fór á Heimsmeistaramótið í Katar og Sunneva Dögg Friðriksdóttir fór í æfingabúðir í tengslum við HM á sama tíma. Síðustu fjögur ár höfum við átt meirihluta sundmanna í unglingalandsliðum. Baldvin Sigmarsson og Eydís Ósk Kolbeinsdóttir unnu einu verðlaunin sem Ísland fékk á Norðurlandameistaramóti unglinga í desember en þau unnu silfur og brons og Karen Mist Arngeirsdóttir vann brons á Smáþjóðaleikunum núna í júní. Núna í þessari viku kláruðu tveir sundmenn í ÍRB keppni á fyrstu Evrópuleikunum í Baku í Azerbaijan. Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Sunneva Dögg Friðriksdóttir sem eru báðar Íslandsmeistarar og methafar í sínum aldursflokkum gátu þess vegna ekki keppt á AMÍ þar sem þær voru að keppa fyrir landsliðið og syntu þar rétt við Íslandsmetin sín í 1500 og 800 m skriðsundi.; Þegar horft er til baka síðustu ár er athyglisvert að sjá hvernig aldursflokkamótið hefur breytt um form en ÍRB hefur haldið áfram að auka styrk sinn ár frá ári; Árið 2014 vann ÍRB með 1069,5 stigum en í 2. sæti var Ægir með 536 stig og þar á eftir SH með 438 stig. ÍRB náði 159 verðlaunum þar af 67 gull. Þetta ár var AMÍ aðeins fyrir 15 ára og yngri. Eldri sundmenn kepptu á UMÍ þar sem ÍRB var líka með yfirburði og vann 36% allra verðlauna og 44% gullverðlauna, alls 90 verðlaun en á eftir kom SH með 49 og Fjölnir með 13.; Árið 2013 vann ÍRB með 1016 stig en í 2. Sæti var Ægir með 563 stig og þar á eftir SH með 365 stig. ÍRB vann þá 142 verðlaun þar af 71 gull. Mótið var þá með sama sniði og 2014 og var ÍRB líka ríkjandi á UMÍ með 54 verðlaun þar af 27 gull á eftir kom SH með 45 verðlaun og svo Fjölnir með 30 verðlaun.; Árið 2012 var formið eitt stórt mót. Gull gaf 12 stig samanborið við 8 stig núna í ár. Þá gátu 8 sundmenn nælt í stig í hverri grein en núna aðeins efstu 6 og núna er takmörkun við 2 úr hverju liði. Þetta gerir stigaskorið núna í ár enn flottara. Í þessu eldra kerfi fengum við árið 2012 1749 stig og 117 verðlaun, þar af 48 gull, í 2. sæti var Fjölnir með 959 stig og SH þar á eftir með 829 stig.; Árið 2011 var sama stigakerfi og árið 2012. ÍRB náði þá sigurbikarnum aftur til baka eftir tveggja ára fjarveru. Þetta var hörð keppni milli ÍRB og ríkjandi meistara Ægis. Við unnum með 1395,5 stig og 31 gull en Ægir var með 1364 stig og réðust úrslit ekki fyrr en í boðsundunum í lokin þar sem ÍRB sigraði í flestum. Óðinn var þá í þriðja sæti með 601,5 stig. Þetta var harðasta baráttan um sigur í langan tíma. Síðan þá hefur ÍRB ekki fengið samkeppni að neinu marki.; Árið 2010 varð ÍRB í 2. sæti en Ægir vann með 1053 stig og 33 gull, ÍRB var með 857 stig og SH 503. Árið 2009 vann Ægir líka en þá var SH með flest gull eða 38. Árið 2008 var ÍRB ríkjandi og sigraði mótið með flest gull eða 52 samtals.; Svo við í ÍRB höldum þessari fínu hefð áfram. Til hamingju allir með glæsilegan árangur!