Aðalfundur UMFN 2022Prenta

UMFN

Aðalfundur Ungmennafélags Njarðvíkur var haldinn þann 29. mars 2022 kl. 20:00 í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur sl. Rosalega góð mæting í ár og var fundurinn hinn líflegasti. Dagskráin var með hefðbundnum hætti en þó var ekki hægt að ljúka fundi því ekki lágu fyrir reikningar allra deilda. Liðnum “samþykkt reikninga” því frestað til 25. apríl næstkomandi.

Lagðar voru fram 3 lagabreytingar sem allar voru samþykktar samhljóða.

Ólafur Eyjólfsson var endurkjörinn Formaður, Einara Lilja Kristjánsdóttir og Þórdís Björg Ingólfsdóttir sitja áfram í stjórn þar sem þær voru kjörnar til tveggja ára á síðasta aðalfundi, Hámundur Örn Helgason og Anna Andrésdóttir voru endurkjörin til tveggja ára stjórnarsetu, Guðný Björg Karlsdóttir og Thor Hallgrímsson kjörnir varamenn til eins árs.

Eftirfarandi heiðursviðurkenningar voru veittar:

Heiðursviðurkenningar.

Bronsmerki UMFN fyrir 10 ára starf eða keppni fyrir félagið

Halldór Karlsson, Leikmaður og þjálfari Körfuknattleiksdeildar
Kobbi Hermanns, Stjórnarstörf Körfuknattleiksdeildar
Svanur Már, Stjórnarstörf Þríþrautardeildar 
Klemenz Sæmundsson, Störf Þríþrautardeildar
Ingi Þór Þórisson, Þjálfari Knattspyrnudeildar
Rafn Markús Vilbergsson, Leikmaður og þjálfari Knattspyrnudeildar
Birkir Freyr, Þjálfari Glímudeildar

Silfurmerki UMFN með fyrir 15 ára frábært starf eða keppni fyrir félagið

Þórir Rafn Hauksson, Fyrir störf sín fyrir Knattspyrnudeild

Gullmerki UMFN fyrir frábær störf í þágu félagsins en þó aldrei fyrr en eftir 20 ára

Agnar Már fékk silfurmerki 2017. Hann sinnir enn óeigingjörnu starfi fyrir félagið sem nær nú yfir 20+ ár og á síðustu 5 árum hefur hann farið mikinn í þjálfun, stjórnarstörfum og svo ekki sé minnst á viðburðahald.

Bylgja Sverris fékk silfurmerki 2017. Bylgja hefur sinnt þjálfun til margra ára með góðum árangri.

Ágústa Guðmarsdóttir hefur sinnt stjórnarstörfum til margra ára og nú síðast sat hún í Aðalstjórn UMFN.

Gullmerki UMFN með lárviðarsveig fyrir langt og frábært starf í þágu félagsins.

Ólafsbikarinn
Ólafur Thordersen tók til máls og minnist á hve margir eru að gera gott hjá félaginu. Í þrítugasta skipti var Ólafsbikarinn afhentur og er bikarinn hugsaður sem viðurkenning fyrir þann sem vinnur á bak við tjöldin fyrir félagið og er það Jón Björn Ólafsson sem hlýtur þann bikar þetta árið.

Eðvarð Þór Eðvarðsson

Eðvarð Þór Eðvarðsson hefur verið einn mesti fyrirmyndar merkisberi sundíþróttarinnar í Njarðvík og á Íslandi allt frá því hann tók sín fyrstu sundtök í Njarðvík, átta ára að aldri. Þá bæði sem keppnismaður og hin síðari ár sem þjálfari, eða í tæplega 50 ár. 

Eðvarð Þór á einn besta sundferil sem íslenskur sundmaður hefur átt og er eini íþróttamaður UMFN sem kjörin hefur verið íþróttamaður ársins, en það var árið 1986. Eðvarð Þór hefur sett óteljandi Íslandsmet á ferlinum og náð stórkostlegum árangri á alþjóða vettvangi. Árið 1988 komst hann í 16 manna úrslit á Ólympíuleikum, sem er stórkostlegur árangur sem fáir á Íslandi hafa náð og engin annar íþróttamaður innan UMFN hefur náð. 

Þegar keppnisferlinum lauk hélt hann áfram að lyfta sundíþróttinni á hærra plan með því að þjálfa og leiðbeina ungmennum félagsins og landliðsins með gleði, dugnaði, metnaði og gríðarlegum áhuga. Sá eldmóður, áhugi og metnaður sem hann sýnir í starfi sínu með ungmennum okkar er  til fyrirmyndar og öðrum til eftirbreytni. Með sínu góða starfi hefur hann glætt sjálfstraust og keppnisanda óteljandi ungmenna og hjálpað þeim að verða ekki eingöngu betri sundmenn, heldur betri einstaklingar sem sýna samferðafólki sínu virðingu og sinna þeim  verkefnum sem þau þurfa að takast á við í lífinu með  dugnaði, elju og samviskusemi. 

Gestur fundarins var Málfríður Sigurhansdóttir, meðstjórnandi í Stjórn UMFÍ

Boðið var upp á súkkulaði sprengju með Njarðvíkur logoinu í boði Kökulistar.