Aðalfundur UMFN 2025 – Nýr formaður kosinn og heiðursviðurkenningar veittarPrenta

UMFN

Aðalfundur Ungmennafélags Njarðvíkur fór fram í Ljónagryfjunni sunnudagskvöldið 28. apríl 2024. Fundurinn var vel sóttur og sátu hann tæplega 60 félagsmenn og gestir. Fyrir fundarsetningu afhenti Hafsteinn Pálsson frá ÍSÍ viðurkenningar til deilda UMFN fyrir vottun sem fyrirmyndardeildir, en lyftinga-, sund-, knattspyrnu- og körfuknattleiksdeild hlutu slíka viðurkenningu.

Fundurinn var formlega settur af fráfarandi formanni Ólafi Eyjólfssyni og Stefán Thordersen var kjörinn fundarstjóri. Skýrsla stjórnar og ársreikningar voru kynnt og samþykkt, og ein lagabreyting samþykkt og annarri vísað til stjórnar til áframhaldandi vinnslu.

Kosin var ný stjórn félagsins. Erlingur R. Hannesson var kjörinn formaður til eins árs og í aðalstjórn voru kosnar Einara Lilja Kristjánsdóttir, Þórdís Björg Ingólfsdóttir og Guðný Björg Karlsdóttir til tveggja ára. Í varastjórn voru kosin Anna Andrésdóttir og Trausti Arngrímsson.

Það var sérstaklega skemmtilegt þegar félagsmenn voru heiðraðir fyrir störf sín og framlag til UMFN. Bronsmerki hlutu Viðar Einarsson fyrir störf í knattspyrnudeild, silfurmerki hlutu Kristinn Björnsson fyrir störf sem leikmaður og stjórnarmaður í knattspyrnu og Anna Andrésdóttir fyrir stjórnarstörf hjá UMFN. Gullmerki hlutu Árni Ármannsson fyrir víðtæk störf í knattspyrnudeild og Rafn Alexander Júlíusson fyrir áratugalangt starf í sundi, fótbolta og körfu.

Tveir einstaklingar hlutu gullmerki með lárviðarsveig – æðstu heiðursviðurkenningu félagsins. Gunnar Þórarinsson var heiðraður fyrir yfir 40 ára störf í þágu UMFN og íþróttahreyfingarinnar á Suðurnesjum. Þá hlaut Gunnar Þorvarðarson einnig gullmerki með lárviðarsveig fyrir einstakan feril sem leikmaður, þjálfari og stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild félagsins. Ólafsbikarinn 2024, sem veittur er fyrir framúrskarandi framlag, hlaut Birna Ósk Óskarsdóttir.

Fundinum lauk á ávarpi nýkjörins formanns, Erlings Hannessonar, sem þakkaði traustið og lýsti yfir vilja til að efla félagið enn frekar á næstu árum.

Aðalstjórn og deildir félagsins færa Ólafi Eyjólfssyni sérstakar þakkir fyrir sitt óeigingjarna starf fyrir félagið til fjölda ára.

Gunna Þorvarðar þarf heldur vart að kynna, hann ólst upp í barna- og unglingastarfi félagsins og átti svo glæstan feril sem leikmaður í meistaraflokki í körfu. Leikmannaferill hans spannar frá árinu 1968 til 1985 þar sem hann lék yfir 600 leiki fyrir UMFN.
Hann var lykilmaður í uppgangi körfunnar og fyrstu meistaratitlanna og það hélt áfram sem þjálfari. Hann stýrði liðinu til íslandsmeistaratitils 1983-84 (sem spilandi þjálfari) og svo eftir að hann hættir að spila tímabilin 1984-1985-1986.
Gunni var formaður körfuknattleiksdeildar frá 1997 til 2000.

Sem þjálfari vann hann 110 leiki en tapaði 41 leik eða sigurhlutfall upp á 72,8% Gunnar lék 69 landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1974 til 1981.

Gunnar Þórarinsson þarf vart að kynna, en hann hefur lagt ómetanlegt starf að mörkum fyrir félagið um áratugaskeið. Hann tók sæti í stjórn Knattspyrnudeildar árið 1978 og gegndi formennsku þar á árunum 1982 til 1988. Þá var hann jafnframt formaður Íþróttabandalags Suðurnesja á árunum 1979 til 1984 og sat í stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur frá 1996 til 1998. Gunni Þórarins hefur reynst félaginu gríðarlega mikilvægur; hann hefur ávallt staðið fast að baki þess, meðal annars í bæjarmálum, og veitt því óeigingjarna og dýrmæta aðstoð um langt árabil. Það hefur verið eins konar fastur punktur að sjá Gunnar og eiginkonu hans í stúkunni á viðburðum á vegum Njarðvíkur.