Afreksstarf Knattspyrnudeildar UMFNPrenta

Fótbolti

Afreks og tækniæfingar hefjast 8. janúar næstkomandi. Markmiðið með þessum æfingum er að iðkendur sem hafa sýnt framúrskarandi hugarfar, metnað og færni fái tækifæri að æfa saman í hóp.
Þessar æfingar verða sniðnar að þeirra getu og þannig stuðlað að ennþá meiri framförum. Skipulagið verður þannig að afrekshópur æfir einu sinni í viku í fjórar vikur í senn. Að þeim tíma liðnum verða hóparnir endurskoðaðir og einhverjir detta út og aðrir fá tækifæri. Yngri hópur (5. flokkur) munu æfa í Sporthúsinu á föstudögum og eldri hópur (3. og 4. flokkur) í Reykjaneshöllinni á sunnudagsmorgnum.
Á þessum æfingum verður lögð áhersla á tækniþjálfun eins og spyrnur, móttökur, snúninga með bolta, knattrak og gabbhreyfingar. Einnig verður hugað að leikstöðuþjálfun og einn á móti einum (1v1).
Þjálfararnir Marc McAusland og Þórir Rafn yfirþjálfari yngri flokka munu stýra afreksstarfinu.
Það er von barna og unglingaráðs að þessi nýbreytni falli vel í kramið hjá iðkendum og foreldrum. Það að hefja formlegt afreksstarf hjá okkur sem félagi er mikið framfaraskref.

Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) hefur undanfarin misseri hvatt félög landsins til að leggja aukna áherslu á afreksþjálfun. Það gerir KSÍ undir þeim formerkjum að við sem land höldum áfram því frábæra starfi sem hefur verið í barna og unglingaþjálfun undanfarin ár og að við aukum líkurnar enn frekar á að búa til enn fleiri frambærilega knattspyrnumenn sem geta spilað fyrir landslið Íslands í framtíðinni.

Fyrstu afrekshóparnir verða kynntir af þjálfurum á æfingu og verða hóparnir og æfingatímarnir settir inn á XPS.

Hér er hægt að kynna sér afreksstarf KSÍ
Afreksstefna KSÍ