Elskuleg Lára lést langt um aldur fram síðastliðinn sunnudag eftir baráttu við krabbamein. Lára starfaði við Njarðvíkurskóla og var einstaklega virkur og öflugur félagsmaður hjá UMFN. Láru og hlýjunni sem frá henni stafaði verður sárt saknað um ókomna tíð.
Í Láru Ingimundardóttur kristallaðist ungmennafélagsandinn en hún var dugnaðarforkur mikill og vart til það handtak sem hún lyfti ekki fyrir félagið sitt. Ásamt því að vera græn í gegn þá tók hún að sér hin ýmsu störf og var m.a. fyrsta konan til þess að blása lífi í „Ljónið” lukkudýr UMFN. Lára starfaði við hundruði leikja hjá félaginu og verk sín innti hún af hendi með bros á vör og ávallt með hlý og falleg orð til samferðamanna sinna.
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur vottar fjölskyldu Láru samúð sína og þökkum við Láru fyrir hennar einstaka framlag til áratuga í félaginu.
Blessuð sé minning Láru Maríu Ingimundardóttur.
Fyrir fánann og Láru!
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur