Askja og Dekkjahöllin verða aðalsamstarfsaðilar barna- og unglingaráðsPrenta

Körfubolti

Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur kynnir með stolti nýja aðalsamstarfsaðila deildarinnar en það eru Askja og Dekkjahöllin. Nýr þriggja ára samningur var nýlega undirritaður í upphafi tímabils en líkt og fyrri ár er í mörg horn að líta hjá unglingaráði og því mikið fagnaðarefni að fá jafn öfluga aðila að starfinu.

Askja sérhæfir sig í sölu og þjónustu á bifreiðum frá Mercedes-Benz, Kia, Honda og Smart. Askja og Dekkjahöllin hafa til þessa starfað í höfuðborginni en eru að opna nú á næstunni nýtt og glæsilegt útibú hér í Reykjanesbæ. Dekkjahöllin hefur verið í rekstri í háttnær 40 ár og hefur nú starfsstöðvar á Akureyri, Egilsstöðum, Reykjavik og í Reykjanesbæ. Fyrirtækið rekur hjólbarðaþjónustur, smur- og þvottastöðvar.

„Verkefni unglingaráðs eru fjölmörg á hverju tímabili og því mikið fagnaðarerindi að fá öfluga aðila með okkur í lið eins og Öskju og Dekkjahöllina. Okkar iðkendum hefur fjölgað um ríflega 20% frá því félagið flutti megnið af starfsemi sinni í IceMar-Höllina. Stærri hópar kalla á fleiri þjálfara og fleiri verkefni sem er ánægjulegt en það er mikið verk að halda úti viðlíka starfi,“ sagði Guðni Sigurbjörn Sigurðsson formaður Unglingaráðs Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.

Mynd frá vinstri/ JB: Kristmann Freyr Dagsson frá Öskju, Guðni Sigurbjörn Sigurðsson formaður Unglingaráðs KKD UMFN, Reynir Stefánsson Dekkjahöllinni og Jón Halldór sölustjóri Öskju í Reykjanesbæ.