Baskonia næsti áfangastaður hjá Róberti SeanPrenta

Körfubolti

Ungmenni í Njarðvík með öflugan grunn

Róbert Sean Birmingham hefur samið við Baskonia á Spáni en hann gerði nýverið langan samning við þetta ört vaxandi körfuboltafl á Spáni. Róbert sem lék sinn fyrsta leik og skoraði sín fyrstu stig í úrvalsdeild á síðustu leiktíð undirbýr nú flutning sinn til Spánar en hann hefur lagt mikið á sig undanfarin ár til þess að ná inn í atvinnumennskuna. Róbert Sean er einn af mörgum Njarðvíkingum sem síðustu misseri hafa lagt land undir fót með körfuboltaþekkingu sína að vopni. Til hamingju með áfangann Róbert Sean!

Eins og áður hefur komið fram gerði Elvar Már Friðriksson nýverið samning í Litháen við BC Siauliai eftir öflugt ár í Svíþjóð þar á undan. Á síðustu leiktíð voru þeir Snjólfur Marel Stefánsson, Adam Eiður Ásgeirsson og Gabríel Sindri Möller allir við nám og körfuboltaiðkun í Bandaríkjunum.

Landvinningar Njarðvíkinga á erlendri grundu eru ekki síst að þakka ódrepandi vinnusemi leikmannanna sem og trausts baklands en Logi Gunnarsson yfirþjálfari yngri flokka Njarðvíkur segir þetta einnig vott um öflugt starf í Njarðtaksgryfjunni.

„Í Njarðvík höfum við marga reynda og öfluga þjálfara og flest þeirra hafa starfað hjá félaginu til fjölda ára. Nýverið bættist Friðrik Ingi Rúnarsson í þjálfarahóp félagsins en með hann og Einar Árna Jóhannsson í broddi fylkingar er óhætt að segja að þjálfunarmál í félaginu séu í afar sterkum höndum. Til að ná langt í þessari íþrótt þarf að leggja allt í sölurnar og það hafa iðkendur okkar ekki verið hræddir við í gegnum árin en allt helst þetta í hendur. Öflugt bakland, einstaklingar sem eru reiðubúnir til þess að leggja alla þessa vinnu á sig og þekking í félaginu til þess að liðsinna þeim við að hámarka árangur sinn,“ sagði Logi við UMFN.is en reyndir þjálfarar verða áfram á mála hjá Njarðvík í vetur á borð við Bylgju Sverrisdóttur, Halldór Karlsson, Agnar Mar Gunnarsson og Lárus Inga Magnússon. Þá eru þau ófá þjálfaraefnin á ferðinni með Rúnar Inga Erlingsson við stjórnvölin hjá meistaraflokki kvenna og aðilar eins og Eygló Alexandersdóttir, Adam Eiður Ásgeirsson, Hermann Ingi Harðarson, Birgir Örn Hjörvarsson og Jón Arnór Sverrisson hafa öll verið að leggja flottan grunn að þjálfunarferli sínum síðustu misseri.

Nú styttist óðar í að skipulagðar æfingar hefjist hjá Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og við biðjum alla að fylgjast vel með þegar æfingatöflur og skipulag vetrarins verður birt hér á heimasíðunni. Við munum áfram þurfa að hafa varann á okkur og huga að smitvörnum en við hvetjum alla iðkendur til að vera dugleg að rækta hæfileika sína, líka utan æfingatíma!

#ÁframNjarðvík