Bo Guttormsdóttir Frost fer til námsPrenta

Körfubolti

Bo Guttormsdóttir Frost hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Njarðvík, í bili hið minnsta kosti.  Hún heldur til Englands og hefur þar nám í janúar.

Bo kom til okkar í október en þessi 16 ára stúlka hefur staðið sig feyki vel og er að skila 11,1 stigum á leik á rúmum 27 mínútum og hefur sýnt á stórum stundum mikið hugrekki á gólfinu og sett stór skot en hefur einnig tekið mikla ábyrgð í varnarleik liðsins.

Á sama tíma og félagið þakkar Bo og hennar fólki góð kynni þá veit hún að hún er ávallt velkomin aftur til okkar.

Við heyrðum í Einari Árna þjálfara stelpnanna sem sagði það vissulega ákveðinn skell að missa Bo út á þessum tímapunkti.  ,,Við vorum eðlilega með vonir og væntingar til þess að Bo myndi hið minnsta klára tímabilið og á sama tíma og mér fannst hún standa sig feyki vel þá hafði ég vonir um að hún myndi stíga enn frekar upp á nýju ári hafandi verið að koma sér betur inn í hlutina í nýju umhverfi.  En við virðum og skiljum að ákvörðunin er tekin út frá námi og við óskum Bo alls hins besta og þökkum henni fyrir skemmtilega tíma þar sem hún hefur látið vel til sín taka.”

Hvernig hyggist þið þjálfarar takast á við þessa breytingu á hóp?  Eruð þið að leita að liðsstyrk?
Við vorum ekki að leita þegar Bo hafði samband við okkur í haust. Hún kom með hæð sem okkur vantaði í hópinn en hún kom líka með gæði. Við þurfum bara að sjá hvað verður. Þetta kemur frekar óvænt upp og eins og ég sagði þá vorum við að vonast til að halda henni út tímabilið.  Við erum með fullt af stelpum sem þurfa og geta bætt við sig snúning farandi inn í nýtt ár en svo veit maður aldrei hvort að einhver banki á dyrnar hjá okkur rétt eins og Bo gerði í haust. Það er alveg klárt að við erum ekki að fara að bæta við erlendum leikmanni. Við erum með flottan hóp sem ætlar að standa sig vel í vetur.