Iðkendur, foreldrar/forráðamenn í barna- og unglingastarfi körfunnar í Njarðvík
Tímabilið okkar 2019-2020 endaði ekki alveg eins og við lögðum upp með þegar við hófum æfingar í lok ágúst á síðasta ári en jákvætt er samt að iðkendur gátu klárað tímabilið með æfingum síðustu vikurnar í maí. Það voru rúmlega 250 iðkendur að æfa hjá okkur, 18 frábærir þjálfara á launaskrá og aðalþjálfari sem stýrði starfinu af fagmennsku. Við vonum auðvitað að flestir af þessum þjálfurum verði áfram hjá okkur næsta tímabil.
Covid 19 faraldurinn hafði mikil áhrif á starfið hjá okkur og helst ber að nefna að Unglingaráð missti stærstu fjáröflun ráðsins, Nettómótið, sem var frestað degi áður en mótið hófst. Ákvörðun um frestun var þung en ekki var hjá því komist þar sem afboðanir á mótið voru komnar yfir 50% og neyðarstigi hafði verið lýst yfir af Almannavörnum. Öll vinna við undirbúning fór á augabragði og hófst þar vinna við afboðanir til styrktaraðila og fyrirtækja sem taka þátt í mótinu með okkur.
Það að missa stóra fjáröflun eins og Nettómótið er varð svo til þess að unglingaráð þurfti að taka þjálfara af launaskrá í apríl sem var ekki óskastaða. Fjáraflanir sem þessar sem og stuðningur fyrirtækja skiptir miklu máli í rekstri íþróttafélaga og viljum við þakka okkar helstu stuðningsaðilum sem eru Nettó, Íslandsbanki, verslunin Kostur og Grjótgarðar. Við hvetjum auðvita okkar stuðningsmenn til að beina sínum viðskiptum til þessara fyrirtækja.
Þá kom fljótlega einnig í ljós að iðkendur okkar sem voru valin til að taka þátt í yngri landsliðum eru ekki að fara á mót með landsliði Íslands í sumar sem voru vonbrigði fyrir iðkendur sem voru búin að leggja mikið á sig til að verða valin í landslið. Við treystum á að þessir krakkar haldi áfram að æfa og nýta sumarið vel til þess.
Unglingaráð hefur verið duglegt að vera með ýmsan varning í sölu til fjáröflunar og stefnum við á að setja á stofn vefverslun með varninginn okkar sem auðveldar bæði ykkur og okkur kaup og sölu. Nánari upplýsingar um það síðar.
Körfuknattleiksdeildin ásamt knattspyrnudeildinni hóf á tímabilinu innleiðingu á Sideline forritinu og stefnt er á að það forrit komi sterkar inn á næsta tímabili og leysi af hólmi aðrar samskiptasíður s.s. Facebook og Messenger í utanumhaldi og samskiptum milli þjálfara, foreldra og iðkenda. Forritið kom að góðum notum í samgöngubanninu þegar Logi Gunnarsson, yfirþjálfari, setti inn æfingar sem iðkendur gátu gert heima og heyrðum við af mörgum duglegum krökkum sem tóku allar æfingarnar. Þá voru einnig margir krakkar sem voru duglegir að taka þátt í ýmsum áskorunum sem voru settar á Instagram síðu körfunnar í Njarðvík en það voru mæðgurnar og þjálfararnir Bylgja og Eygló sem áttu heiðurinn af þessu og úr varð mjög skemmtilegar keppnir sem áhugasamir iðkendur tóku þátt í.
En nú með hækkandi sól og frekari losun höftum Almannavarna vegna Covid 19 stefnum við á öflugar sumaræfingar sem Njarðvíkingurinn og landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson stýrir með aðstoð landsliðs iðkenda félagsins og í fyrsta sinn verða æfingar í ágúst svo allir ættu að finna tímabil við hæfi. Elvar Már stýrði einnig sumaræfingum síðasta sumar og var mikil ánægja með það hjá iðkendum, foreldrum og okkur í Unglingaráði.
Í ljósi aðstæðna mun unglingaráð ekki standa fyrir lokahófi líkt og undanfarin ár en stefnum á öflugt tímabil 2020-2021.
Með körfuboltakveðju,
Unglingaráði KKD Njarðvík