Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur hefur framlengt samningi sínum við Bruno Richotti til næstu tveggja ára. Bruno kom til liðs við Njarðvík við yngri flokka þjálfun síðastaliðið sumar.
Mikil ánægja hefur verið með störf Bruno á tímabilinu sem einnig hefur verið að þjálfa við morgunæfingar félagsins. Bruno sem sjálfur var leikmaður hlaut þjálfaramenntun sína á Spáni og þjálfaði fjóra af yngri flokkum félagsins á tímabilinu.
Logi Gunnarsson yfirþjálfari yngri flokka Njarðvíkur sagðist ánægður með áframhaldandi veru Bruno hjá Njarðvík. „Bruno sýndi það strax að hann er hörku þjálfari og því lögðum við mikið kapp á að hafa hann áfram í röðum okkar Njarðvíkinga. Hann mun t.d. stýra töluvert af sumaræfingum félagsins en við kynnum bráðlega sumarprógrammið okkar. Bruno kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu og hefur skýra sýn á hvernig hann vill kenna körfubolta og við deilum þeirri sýn með honum í Njarðvík,” sagði Logi.
Mynd/ JBÓ: Frá vinstri: Anna Hulda Einarsdóttir varaformaður unglingaráð, Bruno Richotti og Logi Gunnarsson yfirþjálfari yngri flokka.