Bruno Richotti ráðinn í LjónagryfjunaPrenta

Körfubolti

„Ný sýn og fjölbreytni í starfinu okkar“

Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur hefur ráðið til sín Bruno Richotti til þess að þjálfa hjá yngri flokkum félagsins á komandi leiktíð.

Glöggir lesendur kannast kannski við nafnið en Bruno er yngri bróðir Nicholas Richotti sem varð bikar- og deildarmeistari með Njarðvík á síðust leiktíð.

Bruno er reyndur þjálfari sem hefur menntað sig og starfað sem yngri flokka þjálfari á Spáni. Á þar síðustu leiktíð söðlaði hann um og þjálfaði yngri flokka hjá ítalska félaginu Fortitua Scauri. Einnig hefur hann reynslu af þjálfun í heimalandi sínu Argentínu.

Bruno Richotti er 33 ára gamall og kemur af mikilli körfuboltafjölskyldu og bindur barna- og unglingaráð KKD Njarðvíkur miklar vonir við væntanlegt samstarf við nýja þjálfarann.

„Við í Njarðvík höfum lengi verið spennt fyrir þeim valkosti að ráða til okkar erlendan þjálfara í yngri flokkana og fá þannig nýja sýn og fjölbreytni í starfinu okkar. Við erum afar spennt fyrir komu Bruno og vera hans hér mun efla starfið okkar til muna,“ sagði Logi Gunnarsson yfirþjálfari yngri flokka UMFN.

„Reynsla Bruno úr starfi yngri flokka á Spáni og á Ítalíu mun vafalítið reynast okkur vel en við í Njarðvík stefnum alltaf að því að bjóða upp á sem besta kennslu og þjónustu fyrir okkar iðkendur. Mér gafst reyndar tækifæri á því á síðustu leiktíð að kynnast Bruno þegar hann heimsótti Nico bróður sinn. Þar fæddist þessi hugmynd að kanna möguleikann á því hvort hann gæti hugsað sér að þjálfa hér á landi,“ sagði Logi.

Bruno er væntanlegur til landsins þann 25. ágúst næstkomandi og tekur strax til starfa enda verður vetrarstarfið kynnt ítarlega á næstu dögum.