Chaz Williams í LjónagryfjunaPrenta

Körfubolti

Gengið hefur verið frá ráðningu á amerískum leikmanni í karlaliðið fyrir næstu leiktíð og ættu stuðningsmenn að þekkja kauða vel frá fyrri tíð. Chaz Williams, sem lék með liðinu tímabilið 2019-2020, mun klæðast grænu aftur næsta vetur.

Eftir erfiða byrjun á 2019-2020 tímabilinu var Chaz fenginn sem annar amerískur leikmaður og eftir komu hans fóru hjólin að snúast. Til að byrja með deildi hann mínutum með Wayne Martin en þegar leið á tímabilið var Martin leystur undan samningi og Chaz var eini Bandaríkjamaður liðsins út tímabilið þangað til það var blásið af vegna Covid 19.

„Ég var alltaf mjög hrifinn af Chaz á sínum tíma og þegar við bárum undir hann að koma aftur þá kom í ljós að hann var heldur betur til í það að koma aftur í Njarðvík, enda leið honum mjög vel hérna. Hann þekkir landið, bæjarfélagið, deildina og félagið. Hann er reynslumikill leikmaður með stórt hjarta og mun leiða nýtt lið Njarðvíkur á næsta tímabili”, sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari um nýjustu ráðningu sína.