Dedrick Basile snýr afturPrenta

Körfubolti

Leikstjórnandinn Dedrick Dieon Basile hefur framlengt samningi sínum við körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og snýr því aftur í baráttuna í Subwaydeild karla tímabilið 2022-2023. Basile sem í gær hélt í frí til Bandaríkjanna hafði það sitt síðasta verk í bili hér á Íslandi að skrifa undir nýjan samning með Krístínu Örlygsdóttur formanni KKD UMFN.

Á tímabilinu leiddi Basile liðið í stigaskori með 18,3 stig að meðaltali í leik og leiddi liðið líka í flestum stoðsendingum með 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann varð ellefti stigahæsti leikmaður deildarinnar og leiddi deildina alla í stoðsendingum og þriðji framlagshæstur í deild með 23,86 framlagsstig að meðaltali í leik. Þá leiddi Dedrick einnig deildina í flestum stolnum boltum að meðaltali í leik eð 2,31.

„Ég er mjög ánægður að vera að koma aftur en mér líður eins og við eigum óklárað verkefni fyrir höndum. Mig langar að koma aftur til þess að eltast við titilinn og mér fannst eins og besta leiðin til þess sé að koma aftur til Njarðvíkur. Áður en ég kom hingað langaði mig að sanna mig í sigurliði, við kláruðum 75% af verkinu og nú er bara að binda endahnútinn. Að spila með þessu reynslumiklu leikmönnum bætti mig mikið sem leikmann og var frábært skref á mínum ferli,“ sagði Dedrick í samtali við UMFN.is

Nýverið skrifaði Mario Matasovic undir nýjan samning við Njarðvík og fyrirliðinn Logi Gunnarsson hefur gefið það út að hann ætli sér að halda áfram í baráttunni. Undirbúningur næstu leiktíðar er því í fullum gangi!

Myndir/ Jón Björn – Dedrick í leik með Njarðvík og á neðri mynd eru Dedrick og Kristín Örlygsdóttir við gerða nýja samningsins í Ljónagryfjunni.