Strákarnir í Drengjaflokki sóttu frábæran sigur í Stykkishólm gegn Snæfelli á laugardaginn í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar. Lokatölur voru 65-72. Byrjunarliðið í gær var Rafn, Þorbergur, Gabríel , Bergvin og Ólafur. Jafnræði var með liðunum í fyrrihálfleik en Njarðvíkingar voru alltaf skrefinu á undan og náðu mest 10 stiga forskoti. Snæfellingar gerðu áhlaup rétt fyrir lok hálfleiksins og jöfnuðu metin 32-32 og þannig stóðu leikar í hálfleiknum. Snæfellingar byrjuðu betur í þeim seinni og settu nokkur þriggja stiga skot sem gaf þeim 6 stiga mun í 3. leikhluta. Okkar drengir náðu að jafna með góðri vörn og nokkrum vel spiluðum sóknum. Aftur tóku Snæfellingar fram úr og voru 4 stigum yfir þegar 4.mínútur voru til leiksloka. Þá kom stór þriggja stiga karfa hjá Gabríel úr hægra horninu sem minnkaði muninn í 1 stig. Næstu mínútur voru æsispennandi þar sem Veigar Páll skoraði úr gegnumbroti og setti síðan þriggja stiga körfu strax í kjölfarið. Einnig voru sóknarfráköst og körfur frá Bervini mjög stór þáttur í þessum lokakafla . Liðið spilaði vel í heildina þó svo að smá einbeitingarleysi í vörninni gaf Snæfellingum stundum of opin skot. Guðjón og Óli börðust vel og skoruðu nokkrar góðar körfur í teignum eftir sendingar frá Gabríel sem keyrði oft vel að körfu Snæfellinga. Þorbergur átti einnig nokkur flott gegnumbrot og skoraði mikilvæga körfu úr hraðaupphlaupi eftir að hafa stolið boltanum í fjórða leikhluta. Rafn stjórnaði leik liðsins vel sem aðal leikstjórnandi liðsins. Góð innkoma af bekknum í fyrri hálfleik hjá Jonna, Birgi og Jóhanni skiptir alltaf sköpum í bikarleikjum eins og þessum, Birgir átti t.d. þriggja stiga körfu í fyrri hálfleik sem gaf liðinu 10 stiga forskot.
Gabríel var stigahæsti maður vallarins með 32 stig og Veigar Páll kom næstur með 18 stig. Sigur staðreynd á erfiðum útivelli eftir nokkuð langa rútuferð. Þess má geta að rútubílstjóri í þessari ferð var Gunnar Þorvaðarson faðir Loga þjálfara liðsins og sinnti starfi aðstoðarþjálfara í leiknum. Ekki amalegt að vera með mann á bekknum sem hefur unnið 6 Íslandsmeistaratitla fyrir Njarðvík sem leikmaður og þjálfari í efstu deild. Við þökkum Gunnari að sjálfsögðu fyrir hjálpina í gær.