UMFN hefur ráðið Einar Árna Jóhannsson í stöðu íþróttastjóra félagsins. Einar, sem flestir þekkja er fæddur og uppalinn í Njarðvík, kemur inn í starfið með mikla reynslu í stjórnun, þjálfun og kennslu. Hann hefur verið virkur í körfuknattleiksdeild UMFN frá unga aldri og hefur gegnt fjölmörgum hlutverkum innan félagsins til margra ára.
Sterkur bakgrunnur
Einar hóf þjálfaraferil sinn árið 1993 og hefur síðan þá starfað sem þjálfari hjá nokkrum af fremstu félögum landsins, þar á meðal Njarðvík, Hetti, Þór Þorlákshöfn og Breiðablik. Hann hefur einnig gegnt stöðu yfirþjálfara yngri landsliða hjá Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ) og leitt fjölmörg verkefni sem tengjast stefnumótun og uppbyggingu innan íþróttafélaga. Einar hefur jafnframt starfað sem grunnskólakennari í Njarðvíkurskóla og Fellaskóla í Fellabæ, þar sem hann hefur kennt íþróttir, íslensku og sinnt umsjónarkennslu.
Spennandi tímar
Einar leggur ríka áherslu á mikilvægi stefnumótunar félagsins í heild og er tilbúinn að leiða þá vinnu í samstarfi við framkvæmdastjóra félagsins og stjórnir deilda. Einar kemur inn með mikilvæga reynslu og ástríðu fyrir því að byggja upp sterka liðsheild og menningu innan Ungmennafélagsins Njarðvíkur.
“Ég tel að reynsla mín í stjórnun, bæði í þjálfun og kennslu, muni koma sér vel í þessu starfi. Ég er spenntur fyrir því að takast á við þetta krefjandi verkefni og hjálpa UMFN að ná nýjum hæðum,” sagði Einar.
“Við erum afar spennt fyrir því að fá Einar inn í þetta hlutverk. Hans reynsla og þekking á íþróttastarfinu er ómetanleg fyrir félagið. Hann hefur sýnt það í gegnum tíðina að hann getur byggt upp öfluga liðsheild og við hlökkum mikið til samstarfsins,” segir Hámundur Örn Helgason, framkvæmdastjóri UMFN.
Einar mun hefja störf í hlutastarfi samhliða kennslu sinni í Njarðvíkurskóla en mun færast yfir í fullt starf hjá UMFN í vor þegar skólaárinu lýkur.