Einar: Undirbúningur hefur gengið vel og nú látum við bara vaðaPrenta

Körfubolti

Risaleikur gegn Hamar/Þór Þorlákshöfn í Smáranum 18. mars! Undanúrslit í VÍS-bikarnum hjá Ljónynjum og sigur tryggir liðinu sæti í úrslitum bikarkeppninnar á laugardag. UMFN.is tók hús á Einari Árna þjálfara lisins sem sagði undirbúning hafa gengið vel og nú væri bara mál að láta vaða á þetta! Við minnum á að miðasala er í fullum gangi á Stubbur app.

Hvernig leggst leikurinn gegn Hamar/Þór Þ. í ykkur þjálfarateymið?
Við erum eins og stelpurnar, fullir tilhlökkunar. Spiluðum í 8 liða um miðjan janúar og biðum lengi eftir næsta andstæðing. Bikarinn er óvenju seint á ferð þetta árið, korter í úrslitakeppni en við erum á góðum stað sem lið, vinnandi hörðum höndum að því að verða enn betri.

Hvernig er staðan á hópnum, allar heilar og klárar í slaginn?
Já, staðan er bara frekar góð á hópnum. Undirbúningur hefur gengið vel og nú látum við bara vaða.

Er undirbúningur liða fyrir bikarleiki mikið frábrugðinn deildarleikjum?
Í raun ekki, allavega hjá okkur. Við vorum vissulega farin að huga að þessum leik eftir Keflavíkurleikinn í deild þegar við vorum búin að tryggja annað sætið. Notuðum töluvert af tíma í undirbúning fyrir Vals leik með hugann á þennan bikarleik. Það er kannski meiri umræða um hvað ef, er snýr að einhverju óvæntu frá andstæðingum.

Skemmtileg þjálfaraminning úr bikarkeppni, lumar þú ekki á fjöldanum af bikarsögum?
Eiginlega ekki hægt að svara þessari spurningu öðruvísi en að rifja upp Bikarúrslitaleik karla árið 1999. Þá var ég aðstoðarþjálfari Friðriks Inga Rúnarssonar í sigurliði Njarðvíkur. Leikur sem aldrei gleymist. Níu stigum undir og 45 sekúndur eftir, og ein frægasta endurkoma sögunnar. Hemmi Hauks með þrist til að jafna og fanta sigur í framlengdum leik. Ég var rúmlega peppaður þegar Hemmi sett´ann og framlenging staðreynd. Á sama tíma voru sumir Njarðvíkingar komnir út í bíl og á heimleið, hafandi misst trúna. Lærdómurinn – þetta er aldrei búið fyrr en þetta er búið. Sjáumst í Smáranum á morgun. Leggjum öll allt á vogaskálarnar til að tryggja okkur sæti í úrslitaleiknum á laugardag. Áfram Njarðvík!