Elvar Már og Sara Rún kjörin best annað árið í röð!Prenta

Körfubolti

Sara Rún Hinriksdóttir og Elvar Már Friðriksson hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2022 af KKÍ. Þetta er í 25. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998. Frá þessu er greint á heimasíðu KKÍ.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum. Bæði voru þau ríkjandi Körfuknattleiks karl og kona síðsta árs. Elvar Már er nú að fá tilnefninguna í annað sinn og Sara Rún er að hljóta nafnbótina í þriðja sinn og þriðja árið í röð.

Nánar má lesa um tilnefninguna í frétt KKÍ hér

Umsögn KKÍ um Elvar Már:

Elvar Már Friðriksson · BC Rytas Vilnius, Litháen
Elvar Már er að hljóta nafnbótina „Körfuknattleiksmaður ársins“ í annað sinn og annað árið í röð. Elvar Már sem valinn var „MVP – Leikmaður ársins“ í litháensku deildinni fyrir tveim árum hélt á síðastliðnu tímabili til Belgíu þar sem Elvar Már gerði samning við Antwerp Giants í Belgíu. Þar átti hann mjög gott tímabil með stærsta liði Belgíu og var byrjunarliðs bakvörður og stýrði sóknarleik liðsins. Í lok þess tímabils fór hann stutt til Ítalíu áður en leiktíðinni lauk. Fyrir þetta tímabil voru það hinsvegar svo litháesku meistararnir í Rytas Vilnius sem sóttu Evlvar og tryggðu sér starfskrafta hans og hefur hann verið að stýra leik þeirra með glæsibrag og leiðir liðið sitt í stoðsendingum en Rytas Vilnius sem er með feikisterkt lið og ætlar sér mikið. Liðið leikur einnig í evópukeppninni, FIBA EuroCup, samhliða deildinni heima fyrir, þar sem liðið er í öðru sæti deildarinnar og er líklegt til afreka í vor í úrslitakeppninni.

Með íslenska landsliðinu hefur Elvar Már verið leiðtogi liðsins og hefur hann tekið þátt í öllum leikjum liðsins á undanförnum árum og heilt yfir verið meðal bestu manna liðsins í hverju verkefninu á fætur öðru. Hann átti stóran þátt í því að koma liðinu inn í undankeppni HM á sl. tveim árum í gegnum ýmsa riðla og forkeppnir sem hefur reynst gríðarlega dýrmætt og komið landsliðinu á góðan stað á ný. Elvar Már átti mjög góða leiki fyrir Ísland á þessu ári þegar Ísland náði í mikilvæg stig, til dæmis gegn Ítalíu, Hollandi og Úkraínu hér heima í leikjum sem var mikilvægt að vinna. Þar lék Elvar Már frábærlega og var óstöðvandi í sóknarleik Íslands sem gerði andstæðinga Íslands ráðþrota í hverjum leiknum á fætur öðrum. Frábær frammistaða hans í leikjunum tveim gegn Ítalíu varð til þess að lið í efstu deild, Derthona, keypti upp samning hans við Antwerp Giants í lok tímabilsins sem er til marks um hversu mikla athygli hann fékk á árinu. Elvar Már er í 28. sæti yfir flest framlagsstig í undankeppni HM í evrópu og 9. sæti yfir bakverði sem segir talsvert um framlag hans til landsliðsins.