Fimm semja til framtíðar: Guðmundur Aron og Brynjar Kári úr Fjölni í NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Njarðvík samdi nýverið við fimm unga leikmenn fyrir komandi leiktíð í Bónus-deild karla. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari liðsins bætti þá við hópinn tveimur ungum og öflugum leikmönnum úr Fjölni en þeir eru Guðmundur Aron Jóhannesson og Brynjar Kári Gunnarsson.

Þá sömdu þeir Sigurbergur Ísaksson, Sigurður Magnússon og Patrik Joe Birmingham einnig við Njarðvík en Patrik Joe hefur m.a. staðið í ströngu með U16 ára karlalandsliði Íslands þetta sumarið.

„Hér eru á ferðinni fimm ungir og öflugir leikmenn sem Njarðvík bindur vonir við til framtíðar. Það er vissulega spennandi að fá til félagsins unga og efnilega stráka eins og Guðmund og Brynjar en hér fá þeir frábært tækifæri til þess að efla sína kunnáttu og taka næsta skref á sínum ferli. Sigurður og Sigurbergur eru miklir félagsmenn og hafa líka látið til sín taka í þjálfun á vegum félagsins og Patrik að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Það er ekki bara spennandi að vinna með þessum peyjum því ég skynja það líka á þeim að okkar framtíðarleikmenn eru einnig spenntir fyrir því að taka í notkun nýja og glæsilega Stapagryfju á næstunni,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari liðsins.

Halldór Karlsson formaður Körfuknattleiksdeildar UMFN sagði það ánægjulegt hve mörg tækifæri klúbburinn ætlaði að veita yngri leikmönnum á komandi tímabili. „Við reyndar höfum verið mjög dugleg við það í Njarðvík og erum líka alltaf mjög stolt af þeim leikmönnum sem við náum að leiðbeina upp úr yngri flokkum og inn í meistaraflokkana. Á komandi leiktíð verðum við með margar nýungar en það sem breytist ekki er að félagið ætlar sér að berjast í fremstu röð eins og alltaf og því vitum við að það verður nóg að gera hjá þessum yngri leikmönnum við að fóta sig innan meistaraflokkanna,” sagði Halldór.

Brynjar Kári
Guðmundur
Patrik
Sigurbergur
Sigurður

Myndir/JB