Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur gerði nýverið fimm nýja samninga við unga og efnilega leikmenn til næstu tveggja ára. Leikmennirnir fimm sem um ræðir eru þær Helena Rafnsdóttir, Vilborg Jónsdóttir, Anna Lilja Ásgeirsdóttir, Sigurveig Sara Guðmundsdóttir og Lára Ösp Ásgeirsdóttir.
Allar fimm komu við sögu í 1. deild kvenna í vetur en þó í mismiklu mæli en dagskráin var þétt hjá þeim á tímabilinu með 10. flokk, stúlknaflokk og meistaraflokki kvenna. Um helgina fara þær allar í úrslitahelgi KKÍ í 10. flokki þar sem Njarðvík mætir Keflavík í baráttunni um sæti í úrslitaleiknum.
Þess má einnig geta að Vilborg var á dögunum valin besti ungi leikmaðurinn í 1. deild kvenna. Mikil uppbygging á sér nú stað með meistaraflokk kvenna í Njarðvík og gleðiefni að þessir fimm öflugu leikmenn verði á mála hjá félaginu næstu tvö árin hið minnsta.
Mynd: Kristín Örlygsdóttir formaður KKD UMFN ásamt Helenu Rafnsdóttur, Önnu Lilju og Láru Ösp Ásgeirsdætrum, Vilborgu Jónsdóttur og Sigurveigu Söru Guðmundsdóttur.