Fimmta úrslitakeppnin hjá Ljónynjum hefst í kvöldPrenta

Körfubolti

Í kvöld tekur kvennalið Njarðvíkur þátt í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna í fimmta sinn. Fyrst tók liðið þátt árið 2003 en árið 1993 var farið að krýna Íslandsmeistara í kvennaflokki eftir úrslitakeppni. Njarðvík mætir Keflavík kl. 20:15 í Blue-höllinni en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í úrslitarimmuna. Leikur kvöldsins verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Njarðvík hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari í úrvalsdeild kvenna, fyrst árið 2012 og í annað sinn á síðustu leiktíð. Í bæði skiptin eftir sigur á Haukum í úrslitaviðureign. Okkar konur fengu Keflavík í fangið fyrstu tvö skiptin sín í úrslitakeppninni árið 2003 og 2011 og eiga enn eftir að finna lykilinn að því að leggja Keflavík að velli í úrslitakeppninni. Ljónynjur eru staðráðnar í því að láta það takast þetta skiptið! Það hefst með öflugum stuðning í stúkunni.

Árangur og þátttaka kvennaliðs Njarðvíkur í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna:

2003: Keflavík 2-0 Njarðvík – undanúrslit
2011: Keflavík 3-0 Njarðvík – úrslit
2012: Njarðvík 3-1 Haukar – úrslit (fyrsti titill kvennaliðsins)
2022: Njarðvík 3-2 Haukar – úrslit (annar titill kvennaliðsins)