Fjörið að hefjast: Konurnar byrja úti en karlarnir í NjarðtaksgryfjunniPrenta

Körfubolti

Keppnin er að hefjast á nýjan leik í Domino´s-deild karla og 1. deild kvenna þar sem Njarðvíkurliðin eru í eldlínunni. Kvennaliðið byrjar úti gegn Hamri en karlaliðið heima gegn ÍR.

Hamar-Njarðvík: 4. janúar kl. 16.00/ 1. deild kvenna
Fyrsti leikur Njarðvíkurkvenna þetta árið er á útivelli gegn Hamri. Baráttan í deildinni er hörð og Njarðvíkurliðið í 5. sæti deildarinnar með 14 stig. Leikurinn fer fram í Hveragerði en Hamar situr í 6. sæti deildarinnar með 4 stig, sýnd veiði en alls ekki gefin og tvö stig hér á ferðinni sem skipta sköpum!

Njarðvík-ÍR: 5. janúar kl. 19.15/ Domino´s-deild karla
Fyrsti leikur karlaliðs Njarðvíkur á nýja árinu 2020 er þann 5. janúar kl. 19.15 í Njarðtaksgryfjunni þegar ÍR kemur í heimsókn. Fyrir viðureignina eru aðeins tvö stig sem skilja liðin að en Njarðvík er í 4. sæti með 14 stig og ÍR í 7. sæti með 12 stig. Okkar menn unnu fyrri leikinn 72-85 í Hertz-hellinum í Breiðholti en síðan þá hefur ansi mikið vatn runnið til sjávar og talsverðar breytingar orðið á leikmannahópi beggja liða en bæði lið mæta til leiks með nýja leikmenn innanborðs.

Við óskum öllum Njarðvíkingum árs og friðar og vonumst til að sjá sem flesta í Njarðtaksgryfjunni á síðari hluta tímabilsins.