Föstudagur í Gryfjunni: Njarðvík-StjarnanPrenta

Körfubolti

Ljónagryfjan verður lífleg í kvöld þegar nýkrýndir VÍSbikarmeistarar Stjörnunnar mæta í heimsókn kl. 20:15 í Subwaydeild karla. Mætið snemma og með matarlystina því þríeykið Gunni, Teitur og Frikki Stef stýra grillveislunni vopnaðir hágæða ungnautaborgurum og gómsætu meðlæti frá kl. 19:00!

Leikur kvöldsins verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 20:15 en við ætlum að sjálfsögðu að fylla Ljónagryfjuna á þessum næstsíðasta heimaleik fyrir úrslitakeppnina.

Fyrir leikinn í kvöld höfum við 28 stig í 2. sæti deildarinnar með leik til góða á Þór Þorlákshöfn. Stjarnan er í 6. sæti með 22 stig og unnu fyrri leikinn gegn okkur 97-77. Þar á undan höfðum við lagt Stjörnuna að velli í VÍS-bikar síðasta árs og fögnuðum þar af leiðandi bikarmeistaratitli í upphafi þessarar leiktíðar. Það er búið að ganga á ýmsu hjá öllum við faraldurinn og nú er loks farið að glytta í rúsínuna í pylsuendanum, sjálfa úrslitakeppnina! Allir Njarðvíkingar upp á dekk, mæta í grænu!

#ÁframNjarðvík