Fótbolti fyrir stelpur hjá NjarðvíkPrenta

Fótbolti

Síðastliðið haust byrjaði knattspyrnudeildin aftur með kvennaknattspyrnu eftir nokkurra ára hlé. Stelpur á aldrinum fimm til tíu ára hófu æfingar í lok september. Þessar stelpur eru í 6. og 7. flokki.  Æfðu þær þrisvar sinnum í viku í allan vetur, tóku hellings framförum og fóru á fjögur fótboltamót. Þjálfari flokksins er Daníel Örn Baldvinsson íþróttafræðingur.

Í sumar hafa stelpurnar okkar svo æft fjórum sinnum í viku frá mánudegi til fimmtudags frá klukkan 15:10 til 16:20 á æfingasvæðinu okkar á Njarðtakvelli. Auk þess hafa þær haldið áfram að fara á helstu mótin og staðið sig þrælvel. Í byrjun júní bættist svo 5. flokkur stúlkna við og hafa þær verið að æfa vel síðustu vikur og haft gaman af. Það er okkar upplifun að mikil ánægja sé meðal fólks að við séum farnir að bjóða upp á knattspyrnu fyrir stelpur. Við finnum fyrir gríðarlega miklum áhuga og æfa nú í kringum þrjátíu stelpur hjá okkur í 7., 6. og 5. flokki. Þess má einnig geta að nokkrar stelpur á leikskólaaldri hafa verið að æfa í  8. flokknum okkar sem Freyr Brynjarsson íþróttafræðingur þjálfar.

Við hvetjum áhugasamar stelpur að mæta á fótboltaæfingar hjá okkur og við tökum vel á móti öllum. Æfingarnar í sumar eru sem fyrr segir á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum klukkan 15:10 – 16:20. Áfram Njarðvík.

Eins og myndirnar sýna þá hefur verið nóg að gera hjá þeim frá því í haust.