Gísli Þór Þórarinsson var alla tíð mjög virkur í starfi Ungmennafélags Njarðvíkur enda tónaði ungmennafélagsandinn mjög við sýn Gísla Þórs á lífið. Sem ungur drengur og fram á unglingsár æfði og keppti Gísli Þór bæði í knattspyrnu og körfubolta fyrir UMFN en eftir unglinsárin var það knattspyrnan sem varð fyrir valinu.

Gísli Þór spilaði knattspyrnu með meistaraflokki Njarðvíkur í mörg ár, lék alls tæplega 100 leiki. Fyrir utan það að vera leikmaður tók Gísli Þór að sér fjölmörg verkefni sem tengdust Ungmennafélaginu, má þar meðal annars nefna starf knattspyrnuþjálfara þar sem Gísli Þór var í miklum metum hjá leikmönnum sínum sem kvöddu sinn gamla þjálfara með táknrænum hætti þegar þeir stóðu heiðursvörð við útför Gísla Þórs. Á heimaleikjum Njarðvíkur tók Gísli Þór að sér það hlutverk að vera vallarþulur með eftirminnilegum hætti auk þess að gefa út hina beittu en bráðfyndu leikskrá Boltabríkina. Einn veturinn setti Gísli Þór saman hljómsveitina Geislarnir, sem var skipuð leikmönnum úr meistaraflokki Njarðvíkur, og var tilefnið að spila á þorrablóti UMFN sem og þeir gerðu með glæsibrag.

Gísli Þór var hvatamaður þess að knattspyrnudeildin setti upp sína fyrstu heimasíðu og starfaði við hana fyrst um sinn. Síðast en ekki síst má minnast á stuttmyndina Auga dýrsins sem Gísli Þór framleiddi með aðstoð vina og félaga úr fótboltanum. Þrátt fyrir að tækjabúnaðurinn við framleiðsluna hafi verið frekar frumstæður var útkoman bæði skemmtileg og söguleg og náði myndin þeim merka áfanga að vera sýnd á kapalrás Njarðvíkur. Ungmennafélagið átti stóran sess í lífi Gísla Þórs en það átti tónlistin líka og var hann mjög frambærilegur tónlistarmaður. Styrkleikar hans í tónlistinni voru fjölbreyttir, hann spilaði á gítar og píanó auk þess að syngja og semja lög og texta. Eitt af hans lögum er lagið Finndu mig og er textinn í laginu ákaflega lýsandi fyrir hvaða mann Gísli Þór hafði að geyma.

Finndu mig

Finndu frið, finndu innri ró,
Finndu ást þar sem af henni er nóg.
Finndu mig, ég mun lýsa þína leið.

Ef myrkrið mun sækjá þig,
Loka stöðum sem áður birtu til,
finndu mig og ég mun lýsa þína leið.
Hafi vonin bjarta yfirgefið þig,
haltu fast í trúnna sem styður þig,
finndu mig, já ég er ljós á þinni leið.

Finndu ró, finndu innri frið
Finndu hljóm, sem þú unir við
Finndu tón, sem þú heldur takti við.

Ef myrkrið mun sækjá þig,
Loka stöðum sem áður birtu til,
finndu mig og ég mun lýsa þína leið.
Hafi vonin bjarta yfirgefið þig,
haltu fast í trúnna sem styður þig,
finndu mig, já ég er ljós á þinni leið.

Finndu frið, finndu innri ró,
Finndu ást þar sem af henni er nóg.
Finndu mig, ég mun lýsa þína leið.

Höfundur: Gísli Þór Þórarinsson

Sálmaskrá
Minningargreinar
Veittir styrkir í nafni Gísla Þórs
Minningarorð Séra Fritz Már Jörgensson

Minningarorð frá Knattspyrnudeild UMFN

17. maí 2019

Það voru hörmulegar fréttir sem bárust frá Noregi laugardagsmorguninn 27. apríl sl. Að vinur okkar og félagi Gísli Þór Þórarinsson hefði látist þá um nóttina.

Gísli Þór var í stórum hópi drengja fæddum 1978, sem hófu ungir að æfa fótbolta hjá Njarðvík og nokkrir þeirra náði alla leið í meistaraflokk. Gísli Þór einn af þeim. Hann lék rúmlega áttatíu leiki með meistaraflokki Njarðvíkur á árunum 1996 til 2002. Þá lék hann einnig fjölmarga leiki með Reyni Sandgerði. Hann spilaði ekki bara fótbolta hjá Njarðvík, heldur var hann virkur á ýmsum vígstöðum. Hann sá m.a. um heimasíðuna á fyrstu árum umfn.is, gaf út „Boltabríkina“ á leikjum meistaraflokks og skemmti sér vel þegar skrif hans hittu í mark einhverstaðar. Oftsinnis svo um munaði. Eitt það eftirminnilegasta sem hann tók sér fyrir hendur var stuttmyndin „Auga dýrsins“, þar sem hann fékk nokkra leikmenn og félagsmenn til að leika í. Þá virkjaði hann einnig nokkra leikmenn í hljómsveitina Geisla.  Hann kom að þjálfun yngri flokka, var kynnir og DJ á leikjum og sinnti einnig dómgæslu. Gísli Þór var góður dómari og menn komust ekki upp með neitt múður í leikjum hjá honum.

Við sem vorum samtímamenn hans hjá Njarðvík, minnumst hans sem góðs og skemmtilegs félaga. Síðustu daga höfum við margir minnst skemmtilegra atvika og uppátækja frá þeim tíma. Eitt af þeim var nú þessi „dýrkun“ hans á Robbie Fowler, fyrrum leikmanns Liverpool. Enda hafa eflaust margir haldið að hann hafi heitið Gísli Fowler!

Knattspyrnudeild Njarðvíkur þakkar Gísla Þór fyrir hans tíma og störf fyrir deildinna og sendir innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda hans og vina.

Minningin um góðan dreng lifir,

hvíl í friði Gísli Þór Þórarinsson.

Stuttmyndin “Auga Dýrsins”


Minningarbekkurinn Klettur

Bekkurinn Klettur er gefinn af nemendum árgangs 1978 úr Njarðvíkurskóla til minningar um góðan vin og skólafélaga. Bekkurinn Klettur varð fyrir valinu sem minningargjöf því Gísli Þór var ákaflega traustur og mikill klettur í sínum vinahópum.

Á sínum yngri árum átti Gísli Þór margar góðar stundir með sínum vinum og félögum á skólavellinum við Njarðvíkurskóla, þar sem hann spilaði bæði körfubolta og fótbolta af mikilli innlifun, og því var minningarbekknum fundinn staður á skólavellinum við Njarðvíkurskóla.

Er það von gefenda að sem flestir gefi sér tíma til að tylla sér á bekkinn og hugsa um gamlar og góðar stundir.

Með kveðju
Árgangur 1978 úr NjarðvíkurskólaKlettur bekkur, sem framleiddur er af Steypustöðinni, hefur ríkjandi línur og lágt bak sem gerir það að verkum að bekkurinn fellur vel að umhverfi sínu. Bekkurinn hefur hvorki framhlið né bakhlið og bíður því upp á tvær setstöður. Annars vegar að staldra stutt við og tylla sér í hárri sethæð, eða þá að sitja í lengri tíma í hefðbundinni sethæð. Klettur er hannaður af Hildi Steinþórsdóttur arkitekt og Rúnu Thors vöruhönnuði  auk þess sem Arna Steinarsdóttir sjúkraþjálfari veitti ráðgjöf varðandi góða setstöðu. Bekkurinn er úr sjálfpakkandi steypu sem er þétt og endingargóð auk þess að hafa þann eiginleika að draga í sig hita sólarinnar. Engir tveir bekkir koma nákvæmlega eins út úr framleiðslu og er því hver bekkur einstakur.