Frítt í Ljónagryfjuna á sögulegan leik!Prenta

Körfubolti

Í kvöld fer fram sögulegur leikur í Ljónagryfjunni. Karlalið Njarðvíkur leikur þá sinn 1000. deildarleik í úrvalsdeild karla. Í dag eru aðeins tvö lið sem hafa verið í úrvalsdeildinni frá stofnun hennar árið 1978 en það eru Njarðvík og KR. Bæði lið ná því 1000 deildarleikja áfanganum í kvöld.

Andstæðingar kvöldsins eru Höttur frá Egilsstöðum og hefst leikurinn kl. 18:15 og verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Aðalstjórn Ungmennafélags Njarðvíkur býður frítt á völlinn í kvöld af tilefninu og verður hægt að taka á móti gestum á meðan húsrúm leyfir.

Frá stofnun úrvalsdeildar hefur Njarðvík verið eitt sigursælasta karlaliðið í íslenskum körfuknattleik og 13 sinnum hampað Íslandsmeistaratitlinum. Ljónagryfjan skipar því stóran sess í hjörtum okkar Njarðvíkinga og hefur verið einn af helstu samkomustöðum samfélagsins um áratugabil.

Við bíðum því spennt eftir því að taka á móti gestum í kvöld og fagna 1000. deildarleiknum hjá félaginu í karlaflokki. Andstæðingarnir eru ekki af verri endanum og eru mikilvæg stig í boði í kvöld þar sem liðin munu selja sig dýrt!

#ÁframNjarðvík